Íþróttabærinn Hafnarfjörður


– nema fyrir hjólreiðafólk.

Á undanförnum árum hef ég verið að stunda hjólreiðar og það verður því miður að segjast eins og er að aðstaðan fyrir hjólreiðafólk í Hafnarfirði er afskaplega slæm.  Svo slæm að ég reyni oftast að hjóla stystu leið útúr bænum og í eitthvað af nágrannasveitarfélögunum þar sem aðstaðan er mun betri.

En að komast útúr bænum á reiðhjóli er ekki einu sinni mjög gott þar sem hjólastígar eða afmörkun á göngustígum eru hreint ekki til staðar.

Förum í smá ferðalag.  Ég byrja á að hjóla á gangstétt niður Suðurbraut og niður á Ásbraut.  Við Ásbraut er fínn hjólastígur í um það bil 140 metra.  Svo hjóla ég eftir gangstétt á Strandgötu og fer þá yfir á gangstétt / hjólastíg.  Þessi gangstétt/hjólastígur var lengi vel merktur þannig að smá bútur var fyrir hjólreiðafólk en sú merking er löngu horfin og því allir útúm allt.

Við Norðurbakkann fer ég svo upp Reykjavíkurveg sem er langhættulegasti og versti kaflinn á þessari för.  Þar er ég á frekar lítilli gangstétt sem er rofin með vegum eins og Kirkjuvegi, Hellisgötu, Skúlaskeið og Nönnustíg.  Þarna eru líka bílar stundum uppi á gangstéttinni og svo eðli málsins samkvæmt gangandi fólk einnig.  Við Hraunbrún taka svo við fínir göngustígar sem eru þó alveg ómerktir.  Að lokum kveð ég Hafnarfjörð á mjórri gangstétt þar sem varla er hægt að mætast, rétt áður en ég kem að Álftanesvegi.

Ef ég færi hina leiðina þá tæki ekki mikið betra við, sérstaklega á svæðinu í kringum Bæjarhraun eða Fjarðarhraun. 

Svo datt mér í hug að hjóla í það sem ég held að sé eina reiðhjólaverslunin í Hafnarfirði, Hjólasprett, en það svæði um allt í hraununum er beinlínis stórhættulegt bæði gangandi og hjólandi þar sem þarf að hjóla og ganga á akreinum eða fyrir aftan bíla í bílastæðum.

Það virðist vanta heilsteypta áætlun eða stefnu í þessum málum og því er það stundum þannig að hjóla um Hafnarfjörð er svona eins og að eiga við bútasaum (ímynda ég mér).  Það koma einstaka kaflar þar sem virðist hafa verið hugsað til hjólreiðafólks en svo endar það svæði og ekkert tekur við.  Merkingum er svo næstum alls staðar ábótavant en gott væri, að mínu mati, að merkja stíga til dæmis eins og gert er í Kópavogi þar sem stígar eru merktir bæði gangandi og hjólandi og merkt eins og hægri umferð.

Til dæmis er ágætis göngustígur meðfram Norðurbakka og út Herjólfsgötu og að Hrafnistu.  En ef þú ætlar að hjóla eða ganga lengra en það, þá þarftu bara að vera í vegkantinum. 

Ástand þessara göngustíga er svo alveg efni í annan pistil þar sem að holur, möl og sprungur í stígum nokkuð víða og skapar mikla hættu fyrir hjólandi.  Sem dæmi má nefna stíginn við  Miklaholt.

Ég hvet ráðamenn í Hafnarfirði að fara í smá hjólatúr um bæinn og þegar því er lokið að fara þá í smá hjólatúr um Garðabæ, Kópavog eða jafnvel til Reykjavíkur og sjá þar hvernig hægt er að gera þetta mun betur og auka þannig öryggi bæði hjólandi og gangandi.

Flokkar:Útivist, Fjölskyldan, Lífið

Færðu inn athugasemd