Erlent vinnuafl


Það hefur mikið verið rætt um erlent vinnuafl undanfarið, bæði í fjölmiðlum og svo samfélagsmiðlum. Mikið af þessari umræði hefur verið á neikvæðu nótunum. Mig langaði að leggja mínar hugrenningar inní umræðuna.

Eins og þið kannski vitið þá starfa ég í ferðaþjónustunni þar sem að mikið af erlendu vinnuafli starfar. Mér hundleiðist að vísu að kalla þetta erlent vinnuafl því stór hluti þessara starfsmanna eru komin hingað til að búa hérna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins okkar. Vissulega er einnig ákveðinn hópur sem er kominn hingað til að starfa í nokkur ár og ætlar sér svo að flytja aftur til baka.

Ég þurfti nýlega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda þar sem að botnlanginn í mér ákvað að bólgna upp og kveðja þennan skrokk. Í heilbrigðiskerfinu er einnig, líkt og í ferðaþjónustu, mikið af starfsfólki af erlendum uppruna. Þarna voru sjúkraliðar, hjúkrunarkona, starfsfólk í vöknun, starfsfólk sem ók mér á milli í rúminu mínu og fleiri. Öll reyndu þau að tala okkar ylhýra eins vel og þau gátu og ein sagði mér að hún væri búin að búa hérna í 8 ár, talaði 5 önnur tungumál en að íslenskan væru það erfiðasta að læra. Það eru margir sem gagnrýna heilbrigðiskerfið okkar og þar er örugglega margt sem má bæta en ég fullyrði eftir þessa stuttu heimsókn þangað að það myndi einfaldlega ekki ganga án erlendu starfsmannanna þar. Þarna fékk ég þjónustu frá starfsfólki sem hafði komið til okkar frá Víetnam, Filipseyjum, Eystrasaltslöndunum og Albaníu meðal annars. Frábæra þjónustu þar sem að þetta starfsfólk var að gera sitt besta til að láta okkur líða vel á slæmum stundum hjá okkur. Konan sem gaf mér tvo Celebration mars bita þegar ég kvartaði undan hungri í vöknun á sérstakan stað í hjarta mínu :-).

Svo er það erlenda vinnuaflið í ferðaþjónustunni. Fólkið sem kemur hingað oft í stuttan tíma til að þjónusta okkur á góðu stundunum okkar. Fólkið sem þrífur hótelherbergin okkar, sem kemur með matinn til okkar á veitingastöðunum, þrífur salernin eftir okkur á tjaldsvæðunum, fer með okkur í river rafting og hestaferðir, tryggir öryggi okkar í jöklaferðunum og svona mætti lengi telja. Fólkið sem kvartað er yfir að tali ekki íslensku, nokkuð sem fleiri og fleiri ungir íslendingar eiga erfiðara með. Meira að segja var háttsettur aðili að kenna þessu fólki um hluta af verðbólgunni okkar.

Að lokum vil ég minnast á erlenda vinnuaflið sem er að ala upp börnin okkar. Þetta góða fólk sem ákveður að starfa í leik- og grunnskólum. Sjá um (stundum) óþekku krakkana okkar, kenna þeim að lesa og margt annað. Og svo það er er örugglega erfiðustu verkefni þessa starfsfólks, að eiga í samskiptum við okkur foreldrana um börnin okkar.

Og þið ykkar sem segið að það séu glæpamenn í hópi útlendinganna þá vil ég bara benda ykkur á það að okkur Íslendingum hefur alveg tekist, ein og hjálparlaust, að ala upp ýmsan skíthælinn í gegnum tíðina. Meira að segja höfum við átt eiturlyfjasmyglara, nauðgara og meira að segja nokkra morðingja sem hafa búið í öðrum löndum. Þannig að við erum ekki þau einu sem fáum erlenda glæpamenn til okkar.

Íslenskt samfélag myndi einfaldlega ekki virka án þessa góða fólks sem ákvað að koma hingað til lands og er að ala upp börnin okkar og að sinna okkur á okkar bestu og verstu stundum. Þið hin sem sjáið þetta ekki og talið þetta niður á einhvern hátt þá vil ég bara segja skammist ykkar. Já ég vil ganga svo langt að segja skammist ykkar. Ég vil ekki trúa því að frjálslynda, gestrisna og skilningsríka Ísland ætli að breytast og verða að einhverju landi kynþáttahatara. Tökum til í bakgarðinum okkar og gerum þetta almennilega.

Ímyndið ykkur hvernig samfélagið okkar væri án þessa góða fólks, heilbrigðiskerfið líklega algjörlega hrunið, ferðaþjónustan ekki til staðar, skólakerfið afskaplega lélegt, afskaplega lélegur byggingamarkaður og samfélagið mun litlausara. Fögnum því að þetta góða fólk vilji koma hingað og sjá um okkur á okkar góðu og verstu stundum og hjálpi okkur við að byggja upp gott samfélag.

Flokkar:Lífið, Pólitík

Færðu inn athugasemd