2021 í máli og myndum


Enn og aftur langar mig að skrifa smá pistil þar sem ég rifja upp það helsta á liðnu ári. Þetta er gert mér fyrst og fremst til gamans og vona ég að ég gleymi engu í þessum annál.

JANÚAR

Þetta Covid ár hófst bara nokkuð vel þrátt fyrir takmarkanir. Guðmundur hélt uppá 17 ára afmælið sitt og bílprófið þann 16. janúar og var farið út að borða á Bryggjan Brugghús.

Þá var farið í matarboð hjá Sveini og Áslaugu sem er alltaf jafngaman. Þau hjónin eru gífurlega góðir gestgjafar og frábærir kokkar og var þetta kvöld engin undantekning á því og nutum við hjónin og Steingrímur og Halla gestrisni þeirra.

Í vinnunni var aldeilis spenna en þegar við mættum í vinnu tókum við eftir að skotið hafði verið á gluggana. Eins og kom fram í fréttum þennan daginn þá vorum við ekki skotmarkið heldur nágrannar okkar í Samfylkingunni.

Í lok janúar fórum við svo í sumarbústaðaferð með vinum okkar Jónínu Dögg, Friðrik, Helgu Dögg og Úlfari. Það var gífurlega gaman. Laugardagurinn fór í bjórsmakk þar sem Friðrik hafði komið með gott úrval af þorrabjór. Það er skemmst frá því að segja að þar var hver bjórinn öðrum verri en samkvæmt Úlfari var besti bjórinn sá sem ég og Friðrik blönduðum saman úr tveim eða þrem öðrum á meðan Úlfar skaust á salernið.

Þorrabjóra smökkun

Febrúar

Í febrúar kepptu Lena og Guðmundur á badminton mótum líkt og oft áður. Á RIG leikjunum gerði Lena góða ferð og náði í gull í einliða og tvenndar á meðan Guðmundur náði í gull í tvíliða.

Um miðjan mánuðinn ákváðum við að skoða hús sem við sáum auglýst til sölu án þess að vera í mjög alvarlegum kaup hugleiðingum. Þar gerðust hlutirnir mjög hratt og vorum við með undirritað kauptilboð tveim dögum síðar á bæði okkar húsi og nýja húsinu og því ljóst að við værum að fara að flytja í Setbergið.

Við Ómar fórum svo á fullt í mótorhjólaviðgerðunum en við vorum að vinna í því að hreinsa blöndungana, fyrst á mínu hjóli og svo á hans, vonandi tímanlega fyrir sumarið.

Að venju átti Kristófer svo afmæli – orðinn 23 ára drengurinn. Í tilefni dagsins var ömmu hans, Svönu og Hjördísi Birtu boðið í mat.

Mars

Lena Rut hélt uppá afmælið sitt í byrjun mánaðarins, orðin 14 ára unga daman.

Þá var matarboð hjá Jónínu og Friðrik þar sem ég tók hvorki meira né minna en eina mynd.

Stóra verkefni marsmánaðar var að við fengum nýja húsið okkar afhent og fluttum þar inn um 5 dögum síðar eftir smá málningarvinnu og lagfæringar og þá kom sér vel að hafa því sem næst fullorðin börn að hjálpa til.

Flutningurinn gekk mjög vel þrátt fyrir að vera í fjöldatakmarkönum og þurftum við því að takmarka aðeins fjölda aðstoðarmanna. En við náðum uppí 10 manns samtals með vinum, vini Guðmundar og vinum Kristófers. Með frábærum sendibílstjóra þá gekk þetta svaka vel og hratt enda ákvað sendibílstjórinn að hækka bílinn eins og hann gat og bílinn tæmdur beint uppá svalir.

Mánuðirinn var svo toppaður með smá pöbbarölti og út að borða með þeim Ómari og Kiddu.

Apríl

Páskarnir fór því í það að koma okkur fyrir í Lindarberginu. Hápunktur mánaðarins og einn af hápunktum ársins var svo frábær ferð í sumarbústað með Helgu og Úlfari og svo í beinu framhaldi á Vík með þeim og einnig þeim Jónínu Dögg og Friðrik. Þessi ferð var frábær á alla kanta, gönguferðir, góður matur og drykkir, frábær félagsskapur og svo meiriháttar ferð í íshella.

Við fengum svo að hafa Svönu og Hjördísi Birtu hjá okkur í eina viku í apríl. Það var nú ekki leiðinlegt að hafa litlu prinsessuna hjá okkur.

Svo fórum við auðvitað líka, líkt og meirihluti þjóðarinnar, að skoða eldgosið á Reykjanesi.

Maí

Maímánuð byrjuðum við svo á að bjóða Döggunum og mökum í matarboð og var það fyrsta formlega matarboðið í nýja húsinu.

Lena Rut gerði svo góða ferð á Bikarmót BH þar sem að hún varð Bikarmeistari og nældi sér í sinn fyrsta bikar.

Þá skelltum við okkur á loksins í helgarferð á hótel Glym, ferð sem hafði verði frestað nokkrum sinnum útaf dottlu. Ferðin var farin með saumaklúbb Jónínu og mökum, frábærum hóp sem við höfum brallað ýmislegt með í um 20 ár.

Svo var farið austur á Egilsstaði til að fara í fermingarveislu hjá Ívar og útskriftarveislu hjá Sævari. Óli, bróðir Jónínu, bauð okkur svo uppá heiði í smá Buggy bíla ferð sem var geggjað gaman.

Svo lukum við Ómar að gera við hjólið hans og náðum því að klára bæði hjólin fyrir sumarið.

Júní

Í júní voru svo tvær skemmtilegar veislur. Annars vegar var það langþráð ferming hjá Lenu sem ákvað að fermast borgaralega og héldum við svo veislu í salnum í Morgunblaðshúsinu. Veislan heppnaðist vel, fengum fullt af frábærum gestum og fermingarbarnið í skýjunum.

Hins vegar var það 2ja ára afmæli hjá gimsteininum hennar Svönu, henni Hjördísi Birtu.

Svo förum við í göngu no tvö á gosstöðvarnar.

Júlí

Og þá hófst júlímánuður með mörgum ævintýrum. Fyrst á dagskrá var sumarbústaðaferð með þeim mæðgum Jónínu og Lenu Rut og einnig mæðgunum Svönu og Hjördísi Birtu. Þar var margt gert til gamans svo sem Glanni og Paradísarlaut skoðuð, gengið á Grábrók og svo gengið upp með Kiðárglúfri.

Gömlu nágrannarnir Maggi og Gugga kíktu svo við í matarboð.

Hafist var handa við pallasmíðina. Við þurftum að byrja á að moka í burtu gras og jarðveginn. Ekki var hægt að koma neinum tækjum og því var þetta allt mokað með handafli. Svo var allt sett í eina hrúgu sem vörubíll með krabba rétt náði að teygja sig í. Þegar upp var staðið höfðum við fjölskyldan grafið upp um 21 tonnu á nokkrum dögum. Þvílíkur dugnaður og mikil hjálp frá Kristófer, Lenu og Guðmundi

Þá var byrjað á pallavinnunni og með frábærri hjálp frá Adda, bróður Jónínu, vannst verkið mjög hratt. Við vorum því búin með mest allt dekkið þegar Lena fór í Vindáshlíð og við foreldrarnir ákváðum að skella okkur á Flúðir í smá frí.

Júlímánuð lauk svo með smá höggi, aðallega á egoið þegar ég datt á mótorhjólinu mínu. Sem betur fer ekki slasaður en hjólið smá rispað og eins og fyrr segir, egóið illa farið.

Ágúst

Í ágúst héldum við áfram með pallinn, fórum að undirbúa að setja upp pottinn og klára það sem hægt var. Það var svo 16. ágúst sem fyrsta pottaferðin var.

Svo reyndist ágúst verða mikill mótorhjóla viðskipta mánuður. Guðmundur keypti sér nýjan krossara, Lena Rut keypti sér skellinöðru og svo það sem var óvæntast þá keypti Jónína sér mótorhjól. Lena og Jónína þurfa þvi að fara að huga að því að næla sér í próf þegar líða fer að vori.

Í lok ágúst skelltum við okkur svo með skömmum fyrirvara í 4ra daga ferð norður í land. Vorum þar í eina nótt í góðu yfirlæti í sumarbústað á Illugastöðum með Svein og Áslaugu, fórum svo í tvær nætur á Akureyri og endum þetta svo á Hótel Varmalandi þar sem Steingrímur og Halla bættust í hópinn með okkur og Sveini og Áslaugu.

Kristófer byrjaði í námi en hann skellti sér í fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.

September

Svo varð eiginkonan 45 ára á árinu, já ég veit, svaka gömul. Í tilefni dagsins skelltum við okkur í Sky Lagoon sem er eitt af betri svona laugum.

Badmintonmótin byrjuðu aftur af fullum krafti. Lena náði gulli í tvenndarleik og á Siglufirði náði Guðmundur gulli í tvenndarleik með Rakel.

Þá var matarboð hjá Steingrími og Höllu með Sveini og Áslaugu, þar sem við fengum undarlega góðan forrétt sem var meðal annars úr Ora fiskbúðing.

Október

Mánuðurinn byrjaði með að við skelltum okkur á Nauthól með Úlfari og Helgu og daginn eftir var skírnarveisla hjá dóttur Ólafar og Sævars, henni Benediktu Gígju.

Í október náðist svo sá áfangi að pallasmíðinni var lokið, svona í bili amk. Öll ljós tengd, skjólveggurinn kominn upp og öllum frágangi lokið.

Þær mæðgur Lena og Jónína skelltu sér austur á Egilsstaði í nokkurra daga heimsókn.

Nóvember

Nóvember byrjaði með hvelli en Lena Rut náði þá því markmiði sínu að vera valin í landsliðs æfingabúðir í Badminton og í kjölfarið var hún valin á landsliðsæfingar.

Skelltum okkur á leikhús og sáum Níu líf með þeim Ómari og Kiddu. Þessi sýning var fyrst bókuð fyrir ansi löngum tíma og hefur verið ítrekað frestað. Hún var þó alveg biðinnar virði.

Svo ákváðu hjónakornin að skella sér til Tenerife, sem var meðal annars í tilefni þessi að gamli maðurinn (undirritaður) varð 50 ára þann 16 nóvember. Þessi ferð var akkúrat eins og væntingar stóðu til. Gott veður, góður félagsskapur, mikil afslöppun, nokkrar göngur, skoðunarferðir og frábær matur.

Á afmælisdaginn fórum við í Masca göngu sem var frábær og mæli hiklaust með. Þar lentum við í þeirri óvæntu uppákomu að við urðum að húkka okkur far í fyrsta skiptið á ævinni þar sem að strætóinn fylltist og mátti ekki taka fleiri farþega. Þá var annað hvort að bíða í 2 klst, ganga til baka eða húkka far. Jónína reddaði fari fljótt með ansi hjálpsömu þýsku pari.

Við leigðum einnig bíl einn dag og keyrðum hringinn í kringum eyjuna. Það var alveg frábært og gaman að sjá hve mismunandi Tenerife er.

Við heimkomu var svo bílinn minn fullur af blöðrum sem vinirnir 8×4 vinahópnum höfðu haft fyrir að fara út á Keflavíkurvöll, finna bílinn, fylla af blöðrum og gjöfum í tilefni afmælisins. Frábær endir á ansi skemmtilegri ferð.

Í lok mánaðarins skelltum við okkur á jólahlaðborð með stórfjölskyldunni á Icelandair hotel Natura líkt og fyrri ár.

Desember

Desember var líkt og áður fullur af hefðum. Þó voru nokkrar sem duttu uppfyrir og þá þarf að huga að nýjum hefðum.

Við hjónin brutum aðeins upp aðventuna og skelltum okkur í borgarferð. Gistum á því flotta hóteli Grandi by Centerhotels og fórum að borða á Forréttabarnum. Kannski ný hefð.

Jólin voru róleg og allt samkvæmt reglum þríeykisins. Svana og Hjördís Birta voru hjá okkur á aðfangadagskvöld og svo fórum við venju samkvæmt til mömmu á jóladag. Á annan í jólum fórum við í frisbí golf með þeim Rakel (kærustu Guðmundar) og Rúnari bróður hennar. Það er skemmst frá því að segja að ég var auðvitað eitthvað annað góður en því miður þá klikkaði stigatalningin eitthvað. Kannski önnur ný hefð 🙂

Egill og fjölskylda voru á Íslandi yfir jólin og komu eina kvöldstund á milli jóla og nýárs til okkar. Það er alltaf gaman að hitta þau þá sjaldan það gerist. Aldrei að vita nema það verði farið til Ítalíu árið 2022.

Gamlárskvöld var svo haldið heima enda allir spenntir að sjá útsýnið úr nýja húsinu þetta fyrsta gamlárskvöld okkar hérna. Og það olli ekki vonbrigðum.

Í lok síðasta annáls skrifaði ég að það væru miklar væntingar til ársins 2021 en að öllum líkindum myndi árið ekki uppfylla þær. Og þar reyndist ég sannspár þar sem að helvítis veiran er enn að stjórna okkur óþarflega mikið. Ég er þó mikið þakklátur fyrir þær stundir sem við þó náðum að eiga með fjölskyldu og vinum, en þær urðu bara enn skemmtilegri fyrir vikið.

Árið 2022 er komið. Aftur miklar væntingar en áherslan verður þó á að uppfylla þau markmið sem hafa verið sett frekar en að hafa óraunhæfar væntingar sem, þegar upp er staðið, ég hef litla stjórn á.

Gleðilegt nýtt ár

Flokkar:Fjölskyldan, Lífið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: