2020 í máli og myndum


Svona í upphafi þess að skrifa þennan pistil þá geri ég nú ráð fyrir því að hann verði styttri en undanfarin ár enda var flestum viðburðum frestað og ég veit ekki hve mikið ég get skrifað um Covid árið mikla, en sjáum til :-).

Best að taka það líka fram, líkt og áður, að þessi annáll er fyrst og fremst skrifaðu mér til gamans en auðvitað öllum velkomið að lesa. Hugsunin mín er að þegar ég verð orðin enn eldri og ennþá gleymnari að þá geti ég að minnsta kosti rifjað upp það helsta í þessum pistlum, svona ef ég man þá eftir þeim 🙂

JANÚAR

Árið byrjaði á sama stað og það fyrra endaði, heima hjá okkur í áramótafögnuð með Ómari og fjölskyldu. Árið byrjaði því eðlilega og ekkert sem benti til þess að það yrði stórskrýtið. Í byrjun Janúar hittum við Egil á djamminu sem er nokkuð sjaldgæft þar sem að hann býr í Mílano. Þá eignuðumst við nýja vini en Oddbjörn starfaði fyrir fyrirtæki sem ég átti í samskiptum við í gegnum vinnuna. Hann tók konuna sína Christinu með í vinnuferð til Íslands og eyddum við mjög skemmtilegri kvöldstund með þeim.

Guðmundur varð 16 ára og fór í fyrsta ökutímann sinn á afmælisdaginn. Ég hafði skipulagt það þannig að skólastjórinn hans myndi kalla á hann í tíma og biðja hann að koma með sér. Flestir sem hafa verið í grunnskóla vita að það lofar yfirleitt ekki góðu og var hann því nokkuð stressaður. Skólastjórinn bað hann um að koma fram í anddyri og fara í skóna. Guðmundur skildi nú ekki hvað í ósköpunum hann hafði nú eiginlega gert af sér sem kallaði á það að hann yrði rekinn heim en sá svo ökukennarann bíða eftir sér úti.

Jónína fór í vinnuferð til London í það sem átti að vera fyrsta af nokkrum utanlandsferðum ársins.

Guðmundur átti „comeback“ ársins á fyrsta móti ársins en þar var hann undir 20-14 en fyrir þá sem þekkja ekki þá hefði mótherji unnið með 21 stigi. Guðmundur náði hins vegar að vinna 22-20 og skoraði þannig 8 stig á meðan mótherjinn náði engu. Guðmundur endaði svo að ná 2 sæti á mótinu.

Endaði mánuðinn á að fara með gömlum og góðum vinum út að borða í tilefni af 50 ára afmæli Sigga. Það voru þeir Siggi, Nonni, Helgi og Lalli en Fúsi var vant við látinn. Það var mikið hlegið eins og yfirleitt þegar við hittumst sem er alltof sjaldan.

FEBRÚAR

Fimmti febrúar var stórhættulegur dagur en þá byrjaði Guðmundur æfingarakstur sem hann hefur sinnt af miklum áhuga síðan.

Febrúar var nokkuð eðlilegur, það var pizzakvöld hjá vinahópnum, surprise afmæli hjá Sigga og svo buðum við Döggunum og viðhengjum í matarboð.

Kristófer varð svo 22 ára og var því fagnað með sushi veislu þar sem Svönu og Hjördísi Birtu var boðið. Daginn eftir var svo fyrsta staðfesta Covid tilfellið á Íslandi.

MARS

Mars byrjaði á smá dekri í Bláa Lóninu þar sem við hjónin fórum í Blue Lagoon Retreat Spa sem var mjög skemmtilegt. Þar er hægt að njóta Bláa Lónsins í aðeins meiri ró og næði.

Þá var næst á dagskrá hjá mér að fara í vinnuferð til Berlín en þá var komið að því fyrst á árinu sem þurfti að afbóka, en alls ekki því síðasta.

Og nú breyttist allt hratt í mars. Íþróttaæfingar barnanna féllu niður, skólar hjá þeim breyttust, ég fór í hlutabótaleiðina í vinnu og því að hluta til á atvinnleysisbætur og svo fór ég að vinna heima einnig. Badmintonfélag Hafnarfjarðar var mjög duglegt við að hvetja sína iðkendur við að halda áfram æfingum heima og sendu meðal annars badminton net heim svo að hægt væri að strekkja þau upp og æfa sig áfram.

APRÍL

Líkt og hjá flestum öðrum þá lék leiðinlegur vírus aðalhlutverkið hjá okkur í apríl. Ég í skertu starfshlutfalli og vinna að heiman. Yngri börnin í engum æfingum og takmörkuðum skóla. Kristófer hélt þó nokkuð normal lífi þó að Covid hafi leikið aðalhlutverk í mörgum þeim verkefnum sem hann fékk í vinnunni. Verð að hrósa BH, Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, og þeirra þjálfurum en þau stóðu sig gífurlega vel allt árið í að hvetja sína iðkendur áfram. Settu upp æfingarplön, voru með fjaræfingar, áskoranir, leiki, komu með net til iðkenda og fleira og fleira. VEL GERT BH.

Í vinnunni hjá Jónínu smituðust margir starfsmenn og þurfti Jónína því að fara í sóttkví. Við ákváðum að einangra hana þannig að hún fékk svefnherbergið og annað baðherbergið. Svo fékk hún bara room service. Þegar þessari tveggja vikna sóttkví var lokið fékk hún að fara aftur í vinnuna enda hafði hún ekkert smitast. Eftir rétt um viku í vinnunni þurfti hún svo að fara aftur í sóttkví. Ég hef hana grunaða um að hafa áttað sig á því hvað þetta var mikill lúxus að fá svona þjónustu beint uppá herbergi en hún vill meina að það sé ekki (aðal) ástæðan. Og aftur, sem betur fer, var hún Covid free.

Lena að ljúka enn einni þrautinni sem BH stóð sig vel í að útdeila.

MAÍ

Í maí var aðeins farið að rofa til og við gátum því aðeins farið að gera eitthvað. Ég skellti mér því í tattoo og fékk mér þriðja tattoið mitt. Við fórum svo með 8×4 hópnum út að borða á Grillmarkaðinn. Einnig fórum við í matarboð til Helgu og Úlfars.

Tvennt stóð þó uppúr í þessum mánuði. Annað var það að Guðmundur Adam útskrifaðist úr grunnskóla í lok maí og svo það að ég ákvað að selja vefinn okkar, tjalda.is sem ég hafði sett á laggirnar fyrir um 11 árum síðan.

JÚNÍ

Loksins rann júní upp með aðeins meira frelsi og aðeins minni veiru. Við nýttum okkur það og byrjuðum á að skella okkur á besta hótel landsins, hótel Örk, með þeim Svein, Áslaugu, Steingrími og Höllu. Fórum í dagsferð í Þjórsárdalin og skoðuðum Gjánna. Fórum svo í laugina á Örk þar sem var sannkölluð sólarstrandastemning með drykki serveraða beint í pottinn. Enduðum svo daginn á HVER Restaurant. Á leiðinni aftur í bæinn skoðuðum við Raufarhólshelli sem er geggjaður.

Kristófer slapp vel frá árekstri þar sem hann var stopp á rauðu ljósi og ölvaður ökumaður var ekki á því að stoppa og dúndraði því aftaná hann. Kristó slapp sem betur fer ómeiddur en bíllinn dæmdur ónýtur og því þurfti hann að hefja leit að nýjum.

Á þjóðhátiðardaginn fórum við með Hjálmari og Ídu í gönguferð. Þessi ferð var sannkölluð óvissuferð „a la Hjálmar“ og þeir sem þekkja Hjálmar vita að þannig óvissuferðir eru meira að segja óvissuferð fyrir Hjálmar sjálfan. Ferðin var því nokkrum km lengri en hún átti að verða og nokkrum klst lengri einnig.

19. júní lét ég langþráðan (30 ára gamlan) draum rætast og keyptir mér mótorhjól. Lét hluta þess sem ég fékk fyrir tjalda.is uppí þennan draum og fékk mér svart Honda Shadow. Geggjað og hefði átt að vera löngu búinn að þessu.

Skelltum okkur í aðra óvissuferð, í þetta skiptið með Guðmundi en hann fékk óvissuferð í útskriftargjöf. Hann var sannfærður um að við værum að fara í hestaferð en varð mikið glaður þegar hann sá að um var að ræða fjórhjólaferð með Southcoast Adventures. Geggjuð ferð alveg, mæli mikið með þeim.

Svo var auðvitað haldið uppá 1 árs afmæli sólargeislans, Hjördísar Birtu, þann 28. júní.

Annað í júni var svo til dæmis matarboð hjá Guggu og Magga, Lena fór aftur í Vindáshlíð og við hjónin skelltum okkur í afslöppunarferð á hótel Húsafell. Mæli mikið með því hóteli (svona þegar hótel Örk er fullbókuð). Þar skoðuðum við Giljaböðin, fórum í hjólatúr og gengum upp í Bæjargilið.

JÚLÍ

Kristófer fann sér nýjan bíl þar sem að ekið hafði verið aftaná hann. Hann keypti sér fínan Renault Clio.

Um miðjan mánuðinn skelltum við okkur austur á hérað þar sem við vorum í sumarbústað í um viku. Í þeirri ferð ákváðum við að vera alvöru túristar og heimsóttum hellana á Hellu, fórum í Reynisfjöru, gistum á Fosshótel Vatnajökli og skoðuðum Stokksnes og nágrenni á leið austur. Fyrir austan eyddum við að sjálfsögðu miklum tíma með tengdó, þeim Ingibjörgu og Árna. Fórum með þeim meðal annars á Borgarfjörð Eystri. Skelltum okkur líka í Vök Baths og svo í fjórhjólaferð með East Highlanders um Hallormsstaðaskóg sem var mjög gaman. Mæli með því. Svo gengum við upp að Hengifossi.

Svo er auðvitað nauðsynlegt að minnast á heimsóknina í fallega Seyðisfjörð og hrikalegt að fylgjast með fréttunum þaðan í lok árs. Vonumst innilega til þess að uppbygging þar verði fljótt og að bæjarbúum líði fljótt vel á heimilum sínum.

ÁGÚST

Í ágúst gerðum við nokkuð af ökutækjakaupum og sölum. Seldum Renault og keyptum okkur volvo. Guðmundur seldi svo nöðruna sína sem hann var búinn að laga aðeins og keypti sér nýtt verkefni en í þetta skiptið var það 250cc krossari. Ætlar sér að eyða vetrinum í að lappa aðeins uppá það.

Ég prófaði að fara á Shadow inu mínu útá land og fór í dagsferð aðeins um Suðurlandið. Það var náttúrulega geggjað.

Svo fengum við Hjördísi Birtu í næturpössun til okkar í fyrsta skiptið. Það var gaman og gekk mjög vel enda með eindæmum skemmtileg dama.

Þá fórum við systkinin og makar loksins með mömmu út að borða á Húsið á Holtinu en við gáfum henni það í afmælisgjöf í janúar en útaf sotlu þá höfðum við ekki komist fyrr en núna loksins.

Svo byrjaði Lena í nýjum skóla en hún tók ákvörðun í vor að skipta um skóla og hætta í Öldutúnsskóla og byrja í NÚ. Það var aldeilis góð ákvörðun hjá henni þar sem að henni líður mjög vel í nýja skólanum og dafnar sérdeilis vel þar.

Svo hóf Guðmundur nám í Flensborg á opinni braut á afrekssviði. En útaf sotlu þá hefur hann nú ekki mætt oft í skólann en kláraði önnina með sóma.

SEPTEMBER

Skelltum okkur í dagsferð með mömmu í Borgarnes og nágrenni. Þá fór ég með Ómari, vini mínum og verðandi hjólafélaga, á Selfoss þar sem hann lét líka gamlan draum rætast og keypti sér Hondu Shadow.

Líkt og í september undanfarin 44 ár, átti Jónína afmæli í september og var farið út að borða í tilefni dagsins.

Kristófer ákvað að söðla um og hætti störfum hjá Securitas og fór að vinna í leikskóla í Hafnarfirði.

Það rættist aðeins tímabundið úr æfingarmálum hjá Lenu og Guðmundi og því voru nokkur badminton mót á dagskrá í september. Þar á meðal var Íslandsmeistaramót fullorðinna þar sem Guðmundur keppti í B flokki fullorðinna. Hann gerði sér lítið fyrir og komst í úrslitaleik í einliða, tvíliða og tvenndarleik. Hann sigraði ásamt Jón Sverri í tvíliða og einnig í tvenndar með Lilju. Frábær árangur og tvöfaldur Íslandsmeistari.

Þá náði Lena líka að taka þátt í einu móti, að vísu urðum við að gera okkur að góðu að horfa á það í gegnum zoom eins og svo margt annað á þessu ári. Hún stóð sig mjög vel og komst í undanúrslit í einliða og tvenndar.

Í lok september gátum við svo einnig farið í matarboð til Friðriks og Jónínu Daggar.

OKTÓBER

Október varð frekar rólegur útaf sotlu. Við Ómar byrjuðum þó aðeins á vetrarverkefninu okkar sem er að taka í gegn hjólin og hreinsa blöndungana. Byrjuðum á mínu hjóli.

Þá skelltum við hjónin okkur aðeins í sumarbústað í Miðhúsaskógi í afslöppun, dekur og gönguferðir. Það var mjög kærkomið frí.

Þá vorum við líka með Covid vænt pizzaboð þar sem að Svana og Hjördís komu til okkar en mamma fékk pizzuna senda heim og tók þátt með okkur í gegnum zoom.

NÓVEMBER

Nóvember var álíka viðburðalítill, enn og aftur útaf sotlu. Það var farið í nokkrar gönguferðir, við Lena fengum að sækja Hjördísi í leikskólann í eina viku. Svo þurfti ég að vinna að heiman í tvær vikur aftur, frekar þreytandi til lengdar en ég get nú ekki kvartað mikið, a.m.k. eru aðrir sem þurfa að gera það mun lengur en tvær vikur.

Börnin héldu áfram á svipuðu róli og héldu því áfram með heimaæflingar og heimalærdóm, amk að einhverju leyti. Lena gat þó farið að mæta aðeins meira.

Svo átti ég afmæli, að venju, og var með smá sushi matarboð fyrir Jónín, börnin og þær mæðgur Svönu og Hjördísi.

DESEMBER

Desember fór, líkt og margir aðrir mánuðir, öðruvísi en planað var. Jólahlaðborðið var afbókað og breyttist það því í heimahlaðborð frá LeKock sem var geggjað. Tónleikarnir sem Baggalút voru endurgreiddir en breyttust því í heimatónleika með Björgvini Halldórs og svo þorláksmessu tónleika með Bubba.

Guðmundur og Lena kláruðu önnina með góðum árangri. Svo fór Guðmundur í skriflegt ökupróf en hann stefnir á að vera kominn með bílprófið á afmælisdaginn 16 janúar nk. Þessi þröskuldur reyndist ekki hár og náði hann prófinu í fyrstu tilraun.

Jólin voru svo nokkuð öðruvísi. Venjan er að hittast heima hjá mömmu á þorláksmessu sem varð ekki. Við fengum svo mömmu, Svönu og Hjördísi til okkar á aðfangadag. Í stað jólaboðs hjá mömmu á jóladag fengum við Svönu og Hjördísi til okkar en mamma fór til Mæju. Allt til að halda litlum jóla kúlum eins og þríeykið bað um. Annar í jólum fór ekki eins og venjulega. Þá var búið að plana gamlárskvöld með vinum en ákveðið var að vera frekar heima í litlum hóp. Það fór því eiginlega ekkert skv plani í desember.

Það sem stendur uppúr eftir árið. Atvinnulega séð hefur þetta líklega verið með erfiðari árum þ.e. að verkefnin sem þurfti að vinna og leysa voru oft á tíðum mjög erfið og í raun ómöguleg. Margir mjög góðir samstarfsmenn farnir, bæði úr fyrirtækinu og svo líka úr ferðaþjónustunni almennt. Þegar maður horfir til baka þá er einnig ákveðin aðdáun á hve börnin hafa tæklað allt þetta ástand vel, svona miðað við hve miklu þau hafa misst af. Utanlandsferðin okkar sem við misstum af, hótelferðin eða saumaklúbburinn, þetta kemur í raun allt aftur, þannig séð. Ústkriftarferðin úr grunnskóla, fyrsta árið í menntaskóla, nýnemaballið og ýmislegt þess háttar kemur í raun ekki aftur hjá börnunum okkar og unglingum.

Verð einnig að hrósa grunnskólanum NÚ sem hefur haldið mjög vel utan um námið í þessu öllu og í raun haldið úti því sem næst fullu námi. Einnig eins og ég nefndi fyrr í pistlinum Badmintonfélagi Hafnarfjarðar og þjálfurunum þar. Algjört einvalalið þar á ferð.

En nú er komið 2021 og engar smá væntingar fyrir það ár. Líklega mun það aldrei geta uppfyllt þær allar en vonandi sem flestar.

Gleðilegt nýtt ár.

Flokkar:Fjölskyldan, Lífið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: