Við hjónin og börnin okkar höfum verið miklir tjaldsvæða notendur í gegnum árin og farið á þau ansi mörg. Núna í sumar vorum við hjónin samtals 29 nætur í ferðavagninum okkar og þar af 25 nætur samfleytt. Síðstu 2 ár hafa verið svipuð hjá okkur.
Mér þykir þó þróun á sumum tjaldsvæðum vera orðin neikvæð á þann veg að þjónusta og umhirða svæðisins er verri og verri. Ég vil þó auðvitað ekki alhæfa því að þetta á ekki við um öll svæði. Mér datt því í hug að lista aðeins upp svæði sumarsins og gefa þeim smá einkunn útfrá ástandi flatarinnar, þjónustu starfsmanna, þrifum og ástandi þjónustuhúsa og öðru þess háttar. Ég set þetta í tímaröð á ferðalaginu okkar.
Arnarstapi
Þarna þurfti að fyrirfram bóka sem mér finnst frekar slæm þróun. Með einföldum breytingum mætti þó gera það mun betra og fer ég aðeins betur yfir þær hugmyndir neðst.
Þjónustuhúsin voru ansi góð og nýleg. Þar þurfti númera kóða til að komast inn og þar voru fín sameiginleg salerni og sturtur. Túnið var ekki almennilega slétt og lítið sem ekkert skjól. Þjónusta starfsmanna var sæmileg en þegar við komum voru aðrir í fyrirfram bókaða svæðinu okkar og gátu starfsmenn ekkert gert í því annað en að biðja okkur að biðja þau (gestina) um að tala við starfsmenn þegar þau kæmu.
Einkunn: 6/10

Skipalækur
Þar þurfti ekki að fyrirframbóka og vorum við því ansi heppin að fá gott pláss í frábæru veðri. Þarna er nýtt þjónustuhús sem fær 10/10 í einkunn. Flötin fær líka góða einkun og var mjög slétt og nokkuð auðvelt að hæla niður. Þjónusta starfsmanna fær 15/10 í einkunn en rekstaraðili var yfirleitt á svæðinu og passaði að það væri ekki tjaldað of þröng og vísaði gestum yfirleitt á hvar hægt væri að tjalda. Þá gekk hann einnig um á kvöldin og rukkaði. Þá voru starfsmenn í þrifum sem stóðu sig ansi vel. Heilt yfir var svæðið svo þrifalegt að þegar konan mín sá einu sinni pappír á gólfinu þá tók hún það upp enda varla annað hægt.
Einkunn: 9,5/10. Tjaldsvæði og þjónustan ætti að fá 10/10 en hérna ákvað ég að vera smámunasamur og dró 0,5 af vegna þess að tréin eru orðin svo há að þau skyggðu á sólina auk þess sem þetta svæði var dýrasta svæði sem við vorum á sumar en vissulega var þetta líka lang hreinasta og lang besta þjónustan.


Ásbyrgi
Aftur á fyrirframbókuðu svæði. Flötin þarna fær næstum falleinkun en það var ansi óslétt. Einnig fær þjónustuhúsið falleinkun þar sem það er alltof lítið fyrir svona stórt svæði og þrifum var einnig ábótavant. En þar sem að húsið er of lítið fyrir þennan fjölda þá er of lítið að þrífa það bara einu sinni á dag. Sturturnar voru þannig að við vorum bara í Crocs skónum í sturtunni.
En stór kostur við svæði var að það var rúmgott og ekki var verið að troða inná það.
Einkunn: 5,5/10 (líklega sísta svæðið þetta sumarið, sem er sorglegt þar sem að þetta er jú hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og ríkið ætti að gera betur).


Hrafnagil
Þetta svæði er fyrirframbókað en þó með hluta af svæðinu fyrir drop in gesti sem við nýttum okkur. Salernishúsið sem var við okkar hluta svæðisins var hörmulegt og leit út fyrir að vera frá 1980. Hægt var að nýta sér salernin sem undir íþróttahúsinu sem voru fín og þar var einnig þvottavél sem við nýttum okkur. Svæðið nokkuð slétt og gott.
Einkunn: 7/10. Hefði mögulega fengið hærra en við vorum bara eina nótt og því ekki mikil reynsla.
Stykkishólmur
Ekki fyrirframbókað svæði og vorum þarna í 4 nætur. Svæðið var nokkuð óslétt og margir þegar við komum og því erfitt að finna slétt svæði. Þarna var enginn starfsmaður að vísa fólki til. Þjónustuhúsið ágætt en sturtur ekki góðar þar sem að bara eru í boði tvær útisturtur. Kemur þó ekki mikið að sök þar sem að sundlaugin er við hliðina. Þjónustuhúsið var þó alltof lítið þegar leið á helgina enda virtist vera endalaust sett inná svæðið. Þrifum var nokkuð ábótavant þarna og oft sem vantaði sápu á salernin. Þegar við mættum var þvottavélin biluð og þegar við fórum var þvottavélin enn biluð. Svo var einhver brandarakall sem tók opnaði fyrir loftið á fortjaldinu okkar eina nóttina.
Einkunn: 6/10
Laugarbakki
Vorum mjög stutt, komum seint að kvöldi og fórum snemma morguns og því ætla ég ekki að gefa svæðinu einkun. Finnst þó eitt salerni of lítið fyrir svona svæði en mögulega eru þau fleiri þegar verslunin er opin?
Ártún
Vorum þar í nokkrar nætur og þarf ekki að fyrirfram bóka. Flötin er frábær og mikill metnaður lagður í að hafa allt nýslegið. Og sá metnaður lagði aðeins tóninn fyrir svæði í heild. Þar eru tvö þjónustuhús, annað mun nýrra. Það voru því næg salerni, nægt rafmagn, gott pláss og passað að það væri ekki tjaldað of þröngt. Almennt voru þrif góð en skiljanlega yfir verslunarmannahelgi með fullt svæði var það ekki 100%. Starfsmenn voru frábærir og alltaf reiðubúnir að aðstoða.
Svæðið í heild var afskaplega skemmtilegt og barnvænt með smá tjörn þar sem eru bátar og fleira. Ef ég ætti að finna eitthvað til að gagnrýna þá mætti vera þvottavél og fleiri sturtur en sundlaugin í Grenivík er örstutt frá og mjög fín. Verðið var sanngjarnt.
Einkunn: 9,5/10.

Svona í lokin þá eru nokkrar pælingar um hvernig væri hægt að gera upplifun gesta betri. Auðvitað ekki allt hægt.
Fyrirframbókuð svæði:
- Ekki hafa fletina númeraða heldur hafið þá bara svipað og gert er með hótel herbergi. Þú færð bara úthlutað einhverju þegar þú kemur og ef þú vilt vera áfram og það er laust, þá ertu áfram á sama svæði.
- Ef það er í boði að fyrirframbóka rafmagn, hafið þá rafmagn í boði þegar gesturinn kemur. Annars ætti það bara að vera fyrstur kemur, fyrstur fær.
- Hafið jafnvel tvo flokka – standard og deluxe. Þannig hafið þið möguleika á að bjóða aðeins betri svæði og þá jafnvel fyrir aðeins meiri pening. Einnig mætti hugsa sér „budget“ sem væri þá fyrir einna nætur camper bíla.
Fyrir öll svæði
- Afmarkið svæði fyrir gestina hvort sem það er fyrirframbókað eða ekki. Þannig eru ekki deilur hjá gestum um hvort að viðkomandi sé of nálægt eða ekki.
- Takið á móti gestunum og raðið þeim niður á tjaldsvæðið eftir því hvort að þau séu í eina nótt eða lengur. Þannig eru þeir sem leggja af stað snemma ekki að raska ró annarra. Og með því móti væri hægt að setja þá sem gista lengur á betri svæði.
- Verið með sýnilega starfsmenn sem ganga um svæðið.
- Ekki troða inná svæðið. Það skemmir einfaldlega alla upplifun gesta.
Færðu inn athugasemd