2018 í máli og myndum


Líkt og undanfarin ár þá rita ég smá annál ársins. Þetta er fyrst og fremst gert fyrir mig enda hef ég ánægju af því að rifja upp svona það helst sem gekk á á árinu. Vonandi hafið þið sem nennið að lesa líka einhverja ánægju af.

Þetta er fyrstu skrifin mín inná þessa síðu í eitt ár og því verð ég að hafa eitt af áramótaheitunum að gera enn betur á þessu ári.

Janúar

Guðmundur Adam hélt uppá afmælið sitt í janúar líkt og síðustu 14 árin. Í þetta skiptið bauð hann nokkrum vinum sínum í bogfimisetrið og svo heim í smá matarboð.

Í janúar var einnig matarboð hjá Áslaugu og Sveini og reyndist það vera síðasta matarboðið sem okkur var boðið í í Dalselið. Það var þó ekki tilkomið vegna slæmrar hegðunar okkar heldur ákváðu þau hjónin að flytja útá land, alla leið í Vogana. Þetta matarboð var líkt og þau fyrri, afskaplega skemmtilegt.

Febrúar

Febrúar einkenndist af íþróttamótum. Bæði Lena og Guðmundur Adam voru á handboltamótum. Reyndust þessi handboltamót vera eitt af þeim síðustu hjá þeim þar sem að þau ákváðu bæði að hætta í handbolta og einbeita sér alveg að badminton.

Badminton mótin byrjuðu að krafti og reyndist badminton vera þema ársins 2018. Varla leið sú helgi sem snerist ekki um badminton að einhverju leyti.

Árið 2018 fór ég í nokkrar vinnuferðir erlendis líkt og 2017 og í febrúar voru það svokallaðar vinnustofur með Íslandsstofu í þremur borgum í Bandaríkjunum. Það voru Cleveland, Chicago og St. Louis.

Kristófer hélt svo uppá 20 ára afmælið sitt í febrúar.

Svo má auðvitað ekki gleyma að við buðum Helgu, Úlfari, Jónínu Dögg og Friðik í mat en það var komið að okkur með þennan matarklúbb.

Mars

Í mars var endurnýjun baðherbergisins uppi lokið og þarmeð lauk stærsta hlutanum í þeim endurbótum sem hafist var handa með árið 2015 með sjónvarpsherberginu.

Líkt og síðustu ár þá hélt Lena Rut uppá afmælið sitt í mars. Núna varð hún 11 ára gömul og bauð bekknum sínum í heimsókn. Þar var mikið fjör og farið í marga leiki.

Daginn eftir afmælið hjá Lenu hélt ég í vinnuferð til Berlín á ferðasýninguna ITB en það er ein stærsta ferðasýning í Evrópu.

Hjördís Lóa, dóttir Mæju, fermdist svo um miðjan mars.

Ákveðið var svo að drífa í parketlögn í mars og byrjað á efri hæðinni. Það gekk vel að fjarlægja eldra gólfefnið af nema í tveim barnaherbergjunum þar sem var gamall korkur. Það þurfti því að kalla út liðsauka með stuttum fyrirvara og gátu Ómar og Óskar komið og hjálpað til við þá skemmtilegu vinnu. Sveinn og Steingrímur komu svo og hjálpuðu við parketlögn sem gekk framar vonum.

Apríl

Í byrjun apríl var farið í eina af nokkrum skemmtiferðum erlendis þetta árið og var förinni heitið til Gdansk með þeim sómahjónum Svein og Áslaugu og Steingrími og Höllu. Gdansk stimplaði sig rækilega inn og er ein af skemmtilegri borgum að heimsækja. Það helsta sem stóð uppúr var heimsókn í útrýmingarbúðirnar Stutthof og svo í WWII safnið. En auðvitað var toppurinn á ferðinni félagsskapurinn.

Guðmundur Adam fermdist í lok apríl og ákvað hann að fermast borgaralegri fermingu. Það var áhugavert að fylgjast með því ferli og heyra hvernig sú fræðsla fór fram. Þjóðkirkjan mætti horfa aðeins í þá átt og nútímavæða aðeins fræðsluna hjá sér til að höfða betur til ungu kynslóðarinnar. Forsetafrúin mætti í athöfnina og hélt ræðu og fékk Guðmundur svo mynd af sér með henni.

Í apríl var svo farið í að taka í gegn eldhúsið, henda út gömlu innréttingunum og setja upp nýjar. Það gekk framar vonum enda með góða hjálp frá Gunna mági en annars væri ég líklega ennþá að (mæli með GK hús ef ykkur vantar smið).

Maí

Í byrjun maí fór Jónína í vinnuferð til Brighton og gat kallinn séð um heimilið einn á meðan, já ég veit, ótrúlegt.

Lena Rut kom inn einn daginn og spurði hvort hún og vinkonur hennar mættu ekki smíða sér kofa fyrir framan húsið hjá okkur. Ég gaf leyfi fyrir því enda taldi ég að þær myndu fljótt gefast upp en það var nú aldeilis ekki. Kofasmíðin fór á fullt, safnað saman timbri héðan og þaðan og svo var neglt, sagað og neglt. Unnið var á fullu og eftir nokkra daga var kofinn kominn upp fyrr en varði.

Í lok maí fór ég í vinnuferð til Dusseldorf á áhugaverða vinnustofu um kínverska markaðinn. Þar fór fyrsti dagurinn í það að fræðast um kínverska ferðamenn, hvernig þeir eru öðruvísi og hvað það er sem þeir eru að leita eftir. Þetta var mjög áhugavert og margt öðruvísi í þeirra menningu. Eitt lítið dæmi er að allir sem ég fundaði með vildu svo mynd af okkur saman eftir fundinn.

Sumarið

Einn af hápunktum ársins var svo sumarfríið til Florida. Kristófer komst því miður ekki með, ákvað að vera heima og vinna og fékk því að vera í íbúðinni hjá Svönu sem kom með okkur í staðinn. Farið var í húsaskipti í Fort Myers sem er vestanmegin á Floridaskaganum. Það var mikið skoðað og gert, farið í Everglades að skoða krókodíla, til Miami og ekið niður að Key West. Clearwater beach heimsótt, Tampa skoðuð, Big Cat rescue heimsótt en þeir sérhæfa sig í að bjarga ljónum og tígrisdýrum úr slæmum aðstæðum. Síðustu dagana eyddum við í Orlando og heimsóttum þar meðal annars Cape Canaveral og Discovery Cove. Discovery Cove var líklega einn af hápunktum ferðarinnar en þar fengum við að synda með höfrungum og snorkla innan um fiska og risaskötur.

Eftir þrjár góðar vikur í Orlando var haldið í kuldann á Íslandi. Fljótlega eftir að heim var komið fór Guðmundur aftur út en í þetta skiptið til Noregs í æfingarbúðir í Badminton sem hann fékk meðal annars í fermingargjöf. Fór hann með vini sínum Jón Sverri og var amma Jóns Sverris sérstakur fararstjóri og fékk hann að gista líka fyrstu og síðustu nóttina hjá frænku Jóns. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að passa drenginn okkar.

Við Jónína og Lena héldum hins vegar í Sælingsdal í fjölskylduútilegu hjá ættingjum Jónínu. Þessar útilegur eru fastur liður annað hvert sumar. Þar heimsóttum við með annars Rebbu á næsta bæ við Lauga sem sýndi okkur dýrin sín m.a. kanínur, krumma og refaunga.

Í lok júlí og byrjun ágúst var svo haldið austur á Egilsstaði sem er alltaf gaman. Í þetta skiptið reyndum við að vera dugleg að fara að ganga um á austurlandi og fórum meðal annars með Árna í góða gönguferð að Stapavík sem er svakalega falleg vík og skemmtileg gönguleið.

Í lok sumars hittum við svo gamla og góða granna í matarboði sem átti eftir að hafa afleiðingar. Þau fóru að segja okkur frá því að þau ætluðu að skella sér í hjólaferð til Ítalíu vorið 2019 og skömmu síðar vorum við búin að bóka okkur með þeim. Mikil tilhlökkun.

Guðmundur Adam ákvað í byrjun sumars að breyta til og skrá sig í grunnskólann NÚ og hóf nám í honum í lok ágúst. Kristófer hélt áfram í Flensborg og Lena í Öldutúnsskóla.

September

Við skelltum okkur í útreiðatúr með Íshestum í tilefni af afmæli Jónínu. Tókum Lenu og Guðmundu Adam með.

Svo voru auðvitað badmintonmót en Guðmundur Adam hélt áfram í U15 aldursflokki en Lena fór upp í U13. Guðmundur tók þátt í sínu öðru fullorðinsmóti og stóð sig svaka vel þar, náði í silfurverðlaun.

Guðmundur og Lena byrjuðu á að taka þátt í Reykjvíkurmóti Unglinga hjá TBR sem Guðmundur fór í úrslitaleik á móti Stebba vini sínum og sigraði þar.

Október

Þau Lena og Guðmundur fóru saman á mót á Siglufirði. Lena stóð sig mjög vel þar en náði ekki uppúr riðlinum. Guðmundur Adam stóð sig mjög vel, sigraði í einliða og sigruðu líka í tvíliðaleik með Jón Sverri.

Kristófer skellti sér í helgarferð til Búdapest með félögum sínum og skemmti sér vel. Þó gekk heimferðin ekki alveg eins og í sögu en flugvélinni var snúið við eftir millilendingu í Englandi vegna „tæknilegra örðugleika“. Það tókst þó að lokum að koma honum heim til mikið ánægðra foreldra.

Guðmundur Adam hélt áfram að standa sig frábærlega og að sigra mót. Hann fékk þær gleðifréttir í október að honum hefði verið bætt inní yngri landsliðshóp og fór því að stunda þær æfingar líka. Þetta var eitt af þeim markmiðum sem hann hafði sett sér fyrir æfingarárið.

Nóvember

Ég og Jónína skelltum okkur til London í byrjun nóvember en þetta var hluti af vinnuferð hjá mér. Við skoðuðum meðal annars Camden Market sem við mælum með.

Á meðan við vorum erlendis þá sá Svana systir um heimilið og fór meðal annars með Lenu á badminton mót í Hveragerði. Það stóð Lena sig frábærlega og náði í silfurverðlaun.

Við skelltum okkur svo í sumarbústaðaferð með Kiddu og Ómari sem er alltaf gaman. Ferðinni var heitið í RB bústað og þar var étið, drukkið smá, étið meira og slappað af og spilað.

Kristófer dimmiteraði svo með útskriftarhópnum í Flensborg og klæddu þau sig öll upp sem strumpar og tók hann sig vel út eins og sjá má á myndum hér að neðan.

Desember

1 des var svo langþráð matarboð hjá Áslaugu og Sveini sem voru nýflutt í Vogana. Af því að þetta var svona langt úti á landi þá ákváðum við og Steingrímur og Halla að gista enda þau hjónin nýflutt í einbýlishús og því nægt plássið. Það er aldrei komið að tómum kofanum með girnilegan mat og drykki hjá þeim hjónum.

Guðmundur Adam náði í gullverðlaun á lokamóti ársins í einliðaleik.

Jólahlaðborð með mömmu og stórfjölskyldunni er fastur liður í desember. Í þetta skiptið var farið á Haust Restaurant. Þar tilkynnti Svana systir fréttir ársins sem eru þær að hún á von á barni í júní næstkomandi.

Einn af hápunktum ársins voru þær gleðifréttir að Kristófer myndi útskrifast sem stúdent frá Flensborg og héldum við honum útskriftarveislu heima þann 20. desmber. Sama dag fórum við líka í útskriftarveislu hjá Ingu Rós, dóttur Mæju systur, sem var að útskrifast líka frá Flensborg.

Á aðfangadag fengum við mömmu og Svönu í heimsókn til okkar, forum svo og hittum Unni og Óskar og Ídu og Hjálmar á öðrum degi jóla. Í hádeginu á öðrum degi jóla hitti ég líka gamla kópavogsgengið en þá stráka hitti ég alltof sjaldan.

Þann 27 desember fórum við fjölskyldan svo í húsaskipti til London. Fengum fína íbúð rétt við Westminister Abbey og Big Ben. Við vorum í 7 daga í London og náðum að skoða margt og njóta vel með börnunum. Við gátum sýnt þeim margt af því sem við erum hrifin af í London eins og Camden Market, Soho, Tower of London, fórum í siglingu upp Thames á og á söngleikinn The Lion King. Eitthvað var verslað líka. Við lukum svo árinu á því að fara út að borða á Benihana og horfðum svo á hreint út sagt geðveika flugeldasýningu við The London Eye.

Fyrstu tvær mínúturnar

Líkt og áður þá varð þessi annáll mun lengri en hann átti að verða. Þeim sem nenntu að lesa þakka ég lesturinn og stefni á að hafa hann styttri fyrir nýtt ár. Þeim sem ég fékk að njóta samveru með á liðnu ári þakka ég fyrir og vona að samverustundirnar verði enn fleiri á nýju ári 🙂

Flokkar:Ferðalög, Fjölskyldan, Lífið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: