Uppbygging og aðgengi á ferðamannastöðum


Nýlega heimsótti ég „nýjan“ ferðamannastað í Jökuldal á Austurlandi, Stuðlagil. Það er einn af fallegri stöðum á Íslandi. Þar hefur lítil sem engin uppbygging átt sér stað og aðgengi sáralítið. Það er ekki hægt að kenna landeigendum um enda er stutt síðan fjöldi ferðamanna fór að aukast þangað og staðurinn er að komast á kortið.

Það er hægt að skoða Stuðlagil frá tveim stöðum. Önnur leiðin er þannig að ekið er að bænum Grund, lagt þar og gengið um 250 metra. Þaðan er ágætt útsýni en þar er hins vegar mjög bratt og mjög hátt og ekkert sem varnar því að fólk geti dottið þar niður.

Hin leiðin er svo að aka að Klausturseli, leggja bílnum þar og ganga um 5 km leið að gilinu. Gangan er auðveld og mestan part á vegslóða. Kosturinn við þessa leið er að á leiðinni er gengið framhjá fallegum fossi, Stuðlafossi. Einnig er mun auðveldara aðgengi að gilinu sjálfu og mun betra útsýni yfir það. Að auki ertu mun lægra þarna megin og ekki eins hættulegt.

Ég varð hins vegar mjög hugsi þegar við vorum þarna vegna öryggis ferðamanna. Þarna voru þau hátt uppi og vildu eðlilega reyna að sjá sem mest af gilinu. Þau reyndu því að fara eins langt og þau þorðu og oft á tíðum var það ansi háskalegt. Þá fóru sumir alveg niður við ánna, þrátt fyrir að aðgengið væri ekki gott. Þaðan var svo reynt að klifra og komast eins langt og mögulegt var.

Á myndunum hér að ofan má sjá á fyrstu myndinni hve auðvelt það er að fara alveg út á brúnina. Seinni myndin sýnir þrjá unga menn sem reyndu að komast eins langt og þeir mögulega gátu. Þegar þeir komust ekki lengra þá ákváðu þeir að snúa við og syntu þess í stað yfir kalda jökulána, allt til að ná nokkrum myndum af sér hinum megin. Hér að neðan má sjá myndband þar sem lengst í burtu má sjá þann síðasta af þeim þremur synda yfir.

Maður á sundi við Stuðlagil

Daginn eftir sá ég svo á Instagram hjá gunnicool að þann dag gengu ferðamenn enn lengra. Ég leyfði mér að taka skjáskot af myndbandinu (fékk leyfi til að birta það hérna) og þar má sjá einn ferðamanninn stinga sér af margra metra klettunum beint ofaní jökulána. Þar má vissulega segja honum það til hróss að hann hefur líklega gert eitthvað svona nokkrum sinnum áður. Svona athæfi eru hins vegar stórhættuleg, bæði þar sem hann sér nú varla hve djúp áin er enda nokkuð gruggug en ekki síður af því að þetta gefur öðru fólki stórhættulegar hugmyndir. Ekki má gleyma því að þetta er jökulá og er streyminu í hana stýrt og getur því dýptin verið mjög misjöfn.

Maður að stinga sér til sunds ofan af Stuðlagili

Hegðun þessara ferðamanna sýnir nauðsyn þess að byggja upp betra aðgengi á ferðamannastöðum. Þar þarf markmiðið að vera að auka öryggi en jafnframt að gera ferðamönnum kleift að komast eins nálægt aðdráttaraflinu og auðið er. Þarna er ábyrgð ríkisvaldsins mikil en veita þarf meira fé í einmitt svona aðgerðir á ferðamannastöðum.

Hér að neðan eru nokkrar myndir frá Sviss og Niagara falls í Bandaríkjunum sem mér finnst mjög gott dæmi um gott aðgengi. Þar er ferðamanninum gert kleift að komast alveg upp að aðdráttaraflinu og þannig er lítil þörf á að fara útfyrir stíga og setja sjálfa sig og aðra í hættu.

Þessar þrjár myndir eru teknar í gljúfrinu Aare Gorge sem er allt að 50 metra djúpt og allt frá 1 – 30 metra breitt. Þar hefur verið gönguleið fyrir ferðamenn frá 1889, já sem sagt í um 130 ár. Þar var gerður veitingastaður og búð árið 1928. Þetta gil er ægifagurt en ef ekki væri fyrir tilstuðlan uppbyggingar í ferðaþjónustu væri þetta gil ekki til sýnis fyrir ferðamenn.

Næstu þrjár myndir sýna hluta af fossunum Trummelbach en þar falla fossarnir í gegnum gljúfur. Þar er hægt að komast mjög nálægt þeim eins og sjá má á þessum myndum en fyrst er farið með lyftu upp og svo er hægt að ganga niður í gegnum gljúfrið og sjá hluta af fossunum rétt við hliðina. Þetta var gert aðgengilegt fyrir ferðamenn árið 1913.

Næstu tvær myndir eru svo af St. Beatus hellunum. Hellarnir eru taldir vera um 14 km langir en rétt um 1 km af þeim eru opnir almenningi. Þar eru göngustígar, ferðir með leiðsögumanni og svo safn. Þessir hellar hafa verið opnir almenningi í um 100 ár.

Við Niagara fossana í Bandaríkjunum er hægt að kaupa aðgang í Cave of the Winds. Þar er farið með lyftu niður í gegnum klettinn, gengið út á timburpalla sem hafa verið smíðaðir alveg að hluta fossanna. Þar er gengið eftir pöllunum þar til hápunktinum er náð en þá er maður svo gott sem inní fossinum, maður verður að minnsta kosti rennblautur og upplifir kraft fossins á eigin skinni.

Af þessum stutta og mjög svo óvísindalega samanburði má sjá að við Íslendingar eigum margt ólært í að gera ferðamannastaði aðgengilega og örugga fyrir gesti okkar. Við eigum að geta lært af öðrum löndum og byggt upp góða aðstöðu fyrir ferðamennina, gert þeim kleift að upplifa ferðamannastaðina mun betur og á mun öruggari hátt og já stundum gegn gjaldi. Það má einnig byggja þetta upp á þann máta að auðvelt væri að fjarlægja það aftur ef sú ákvörðun yrði tekin af síðari kynslóðum.

Á öllum þeim ferðamannastöðum sem ég nefni hér að ofan greiddum við aðgangseyri og í sumum tilfellum líka bílastæðisgjald. Alls staðar upplifði ég mig nokkuð öruggan og alls staðar hefði ég getað klifrað yfir grindverkin en hvergi sé ég nokkurn mann fara útfyrir gönguleiðirnar.

Við þurfum að hafa það í huga að ferðamennirnir vilja sjá og komast mjög nærri staðnum sem þeir eru að skoða. Ef við gefum þeim ekki kost á því, þá eru alltaf einhverjir sem munu gera ýmislegt til að komast nærri og til að ná hinni fullkomnu sjálfsmynd (e. selfie). Við þurfum líka að hafa í huga að við sjálf erum ferðamenn í okkar eigin landi og þar viljum við að börnin okkar og unglingar séu örugg þegar þau ferðast með okkur eða á eigin vegum.

Uppfært
Vil taka það skýrar fram að Stuðlagil er bara eitt dæmi um ferðamannastað á Íslandi þar sem úrbóta er þörf og vil einnig ítreka að ekki sé landeigendum um að kenna enda eru engar tekjur fyrir landeigendur að hafa og því bara kostnaður.
Fékk símtal frá einum landeiganda á Grund en Stuðlagil er hluti af þeirri jörð. Hún sagði mér frá því að unnið væri að úrbótum og væri vinna í gangi að bæta aðgengi og öryggi t.d. með stigum og pöllum og hefur verið horft til annarra ferðamannastaða s.s. Fjarðarárgjúfur, auk þess sem göngustígar yrðu gerðir betri. Hún benti einnig á að þau hefðu fengið úthlutun úr framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem hefði t.d. farið í bílastæðin þarna og þau sjálf hefðu þurft að borga 20% á móti. Engar tekjur væru að koma inn, eingöngu kostnaður. Þarna þarf hið opinbera að standa sig betur. Ekki hægt að ætlast til þess að það sé ókeypis fyrir ferðamenn að ganga um lönd í einkaeigu með tilheyrandi kostnaði fyrir landeigendur.

Flokkar:Útivist, Ferðalög, Ferðamál, Lífið, Stjórnun

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: