Í byrjun ágúst ákvað ég að skora á konuna mína og fékk hana til að taka þátt með mér í 50 daga hreyfiáskorun. Áskorunin gekk út á að á hverjum degi ættum við að hreyfa okkur eitthvað, annað hvort 5 km labb eða að minnsta kosti 10 km hjólreiðar. Þetta fór vel af stað og yfirleitt gengið 1-2 km lengra eða hjólað 20 – 30 km. Að kvöldi sjöunda dagsins fann ég hins vegar einhverja verki í brjóstkassa sem leiddu út í handlegg og upp í kjálka. Eftir smá tuð frá eiginkonunni lét ég tilleiðast og fór á bráðamóttöku að láta kíkja á þetta.


Fljótlega kom í ljós að hjartaensímin höfðu hækkað örlítið og því ljóst að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Ég var því fluttur á hjartadeildina. Þá tóku við nokkrir erfiðir dagar sem einkenndust aðallega af því að ég varð eign Landsspítalans líkt og stóð á fötunum mínum. Fékk að ganga á klósettið en allt sem var eitthvað lengra þá fékk ég far i hjólastól. Strax við komu á hjartadeild stóð til að senda mig í hjartaþræðingu. Ég var nú ekki sáttur við það og fannst ég helst til ungur fyrir svoleiðis nokkuð. Þau voru svo sem sammála mér en sögðu að allt benti til einhverrar stíflu í kransæð. Ég fór því í kransæðamyndatöku en þar kom í ljós að kransæðarnar í mér eru gullfallegar (að mínu mati að minnsta kost) og ekkert að þeim.
Næst var því að fara í nánari rannsóknir og þurfti ég að halda áfram að gista á hjartadeildinni. Svo sem ekkert að því að vera þar, þjónustan og starfsfólkið alveg frábært og vildu allt fyrir mann gera. Ég vildi nú samt frekar vera annars staðar.
Næsta rannsókn var segulómun en þá var mér rennt inní segulómtæki þar sem ég átti að liggja alveg kyrr í um 45 mínútur og halda niðrí mér andanum þegar mér var sagt og anda svo eðlilega þess á milli.
Eftir þessa skoðun kom í ljós að það voru smá bólgur sem áttu sökina, eitthvað sem þeir kalla hjartaþelsbólgur. Þær voru þó sem betur fer smávægilegar og ætti 6 vikna hvíld að laga þetta. Ég spurði lækninn af hverju ég hefði fengið þetta og stutta svarið var „óheppni“. Þetta er sem sagt bólgur sem koma út frá pest eða t.d. kvefi, en tengist hvorki mataræði eða ofþjálfun/vanþjálfun. Það var auðvitað mikill léttir að heyra að þetta væri eitthvað sem myndi og ætti að batna. Þannig að það er núna um viku „frí“ frá vinnu auk þess sem ég má ekki neina áreynslu næstu 6 vikurnar.
Ég er ekki bestur í því að sitja heima og gera sem minnst. Ég gæti farið að vinna í skjólveggnum, mála vegginn við stigann, þrífa bílinn eða jafnvel báða, háþrýstiþvo útiveggina, laga það sem þarf á þeim og mála þá svo. Einnig gæti ég farið í að setja upp í loftið í bílskúrnum og margt fleira. En þetta verður að bíða og þess í stað skrifa ég hérna smá pistil.
Því breyttist 50 daga hreyfiáskorunin, en þar voru 42 dagar eftir, í 42 daga hvíldaráskorun. Konan mín er þó mun duglegri við að passa uppá að ég standi mig í hvíldaráskoruninni en hún var í hreyfiáskoruninni.
Færðu inn athugasemd