2019 í máli og myndum


Líkt og áður þá ákvað ég að skrifa niður smá annál ársins. Veit ekki alveg af hverju en líklega er þetta einhvers konar uppgjör á árinu sem er að líða auk þess að vera ákveðin upprifjun. Vona að þið sem nennið að lesa hafið gaman að.

JANÚAR

Byrjunin á árinu var nokkuð lýsandi fyrir árið en það hefst hjá okkur erlendis. Fyrstu daga ársins eyðum við í London. Á nýársdag fylgjumst við með glæsilegri nýársdags skrúðgöngu sem er nokkurra klukkustunda löng, skoðum konungsdjásnins í Castle of London og svo fórum við á sýninguna Lion King sem var hreint geggjuð.

Svo byrjuðu matarboðin af krafti með matarboði til Helgu Daggar og Úlfars ásamt þeim Jónínu og Friðrik. Þar er yfirleitt mikil skemmtun og var þetta engin undartekning.

Þá skelltum við okkur á hótel Örk ásamt vinum okkar Sveini, Áslaugu, Steingrími og Höllu. Þar ætluðum við að fara á smá „pöbbarölt“ á laugardeginum í Hveragerði en tókst ekki betur en svo að mest allt var lokað og einn af þeim stöðum sem var opinn þá þurftum við að kenna barþjóninum að gera gin og tonic. En HVER Restaurant var auðvitað opinn og þar var vel tekið til matar síns og skemmt sér vel á hótelinu.

Þá hélt Guðmundur Adam uppá 15 ára afmælið sitt þar sem aðalspennan fólst í því að núna gat hann byrjað að læra á skellinöðru sem hann stefndi á að klára fyrir sumarið.


Febrúar

Við hófumst handa við að endurbæta síðasta rýmið í húsinu sem við áttum eftir, anddyrið. Þar sem að það stóð til að krukka í öxlina á undirrituðum þá var drifið í því að skemma hana almennilega, sótt sleggju og farið í að brjóta vegginn sem átti að brjóta. Restin mátti bíða þar til öxlin jafnaði sig.

Líkt og oft áður og eftir þá fóru margar helgar í badminton mót. Á skagamótinu vann Lena Rut til silfurverðlauna í tvíliðaleik og Guðmundur vann til gulls í tvíliðaleik einnig.

Lena skellti sér á barnapössunar námskeið hjá Rauða krossinum enda von á einni frænku í sumar og hún vildi vera við öllu búin.

Kristófer Ingi hélt uppá 21 árs afmælið sitt og í tilefni var auðvitað farið út að borða og skellt í eina selfie með afmælisbarninum.

Samstarf

MARS

Fyrsti viðburður mars mánaðar var líkt og svo oft áður afmæli prinsessunnar á heimilinu en Lena Rut varð 12 ára þann 5. mars. Þar sem að undirritaður þurfti að fara í vinnuferð að morgni 5. mars (sem vakti mikla lukku hjá afmælisbarninu) var afmælisbarninu boðið út að borða þann 4. mars.

Vinnuferðin var til Berlín á ITB sýninguna sem er ein stærsta ferðasýning í heimi. Þar er hægt að sjá allt sem tengist ferðaþjónustu í 27 mismunandi höllum og eru sumar á nokkrum hæðum. Þar er því mikið að skoða.

Um miðjan mars tók Jónína svo það stóra stökk að skipta um vinnu en hún hóf störf sem leikskólastjóri á Stakkaborg í Reykjavík.


APRÍL

Páskarnir komu líkt og fyrri ár og á Páskadag var farið í lambalæri til mömmu. Svo var loksins haldið uppá afmælisveisluna fyrir Lenu Rut.

Kristófer Ingi hóf störf hjá Securitas sem hann var mjög spenntur fyrir og ánægður með. Var honum eingöngu lofað starfi yfir sumarið til að byrja með en svo gekk það eftir að hann gat fengið áframhaldandi starf eftir sumarið.

Svo skelltum við í 8×4 (saumaklúbbur Jónínu og makar) okkur á tónleika. Það sem var sérstaklega spennandi við þessa tónleika var að Ómar vinur okkar var að syngja með RB hljómsveitinni. Hann rúllaði því að sjálfsögðu upp.

Ómar að rúlla þessu upp (afskaði myndgæðin)

MAÍ

Í maí héldum við hjónin áfram að æfa okkur að hjóla en við vorum búin að ákveða að fara með Brynju og Danna í hjólaferð til Lake Como. Við þurftum því að spýta í og koma okkur í smá hjólaform og sérstaklega að venja rassana okkar við það að sitja á hjólunum. Eitt af fyrstu skrefunum þar var að kaupa sér svona fínar og flottar hjólabuxur. Þær virka mun betur en þær looka og eru hrein snilld í svona hjólasporti.

Guðmundur Adam kláraði verklega prófið á skellinöðruna og gat því farið út að keyra. Það vakti mikla lukku og yfirleitt var valin lengri leiðin heim.

Hápunktur mánaðarins fyrir foreldrana var svo langþráð ferð til Ítalíu með Brynju og Danna. Í fyrri hluta ferðarinnar var hjólað um Lake Como og nágrenni sem var alveg hreint geðveikt. Veðrið var allt í lagi en þó frekar í kaldari kantinum og smá rigning fyrstu tvo dagana. Hver hjóladagurinn var öðrum betri og hvert kvöldið öðru betra. Þó er tvennt sem stóð uppúr. hjá mér a.m.k. Annars vegar var það að hjóla frá Lake Como yfir til Lugano í Sviss og aftur til baka til Como. Þetta var um 80 km hringur og gífurlega fallegt landslag. Seinni hlutinn var svo kvöldstund þar sem við fórum í vínsmökkun í Domaso. Geggjað útsýni þaðan og hrikalega skemmtileg kvöldstund og útsýnið bauð uppá myndatökur og því bað ég Danna um að taka nokkrar myndir af mér og Jónínu með útsýnið í bakgrunni. Eins og sjá má hér að neðan þá tók hann fleiri af sjálfum sér. Mæli með að fara þangað ef þið eigið leið á Lake Como.
Vínsmökkun.
Besta hjólaleigan.

JÚNÍ

Seinni hluti ferðarinnar til Ítaliu eyddum við svo á Cinque Terre sem eru 5 þorp, hvert öðru fallegra. Að ganga á milli þessara þorpa hefur lengi verið á „bucket listanum“ okkar og því létum við það rætast í þessari ferð. Við gistum í Monterosso al Mare og byrjuðum á að ganga þaðan til Vernazza og svo lest til baka. Svo tokum við lest daginn eftir þangað sem við létum staðar numið daginn áður og héldum áfram göngunni.

Síðasta deginum á Cinque Terre var svo eytt á stöndinni í sólbaði. Flugum við svo heim frá Mílano og nýttum auðvitað tækifærið og litum í smá heimsókn til Egils.

Þegar heim var komið þá var alveg ljóst að hjólabakterían hafði bitið okkur og því var farið í leiðangur sem endaði á því að við keyptum okkur tvo fáka. Þeir voru svo óspart notaðir í blíðunni í sumar og samtals voru hjólaðir um 1.000 km þetta árið. Þurfum að gera mun betur 2020.

Í júní voru svo nokkrir skemmtilegir viðburðir svo sem matarboð til Höllu og Steingríms með þeim Sveini og Áslaugu.

Lena fór svo í sumarbúðir í Vindáshlíð og var nokkur tár sem féllu við brottför. Það var nú samt ekki alvarlegra en svo að um leið og hún kom til baka þá tilkynnti hún okkur það að hún ætlaði sko aftur næsta sumar.

Hápunktur júní mánaðar var svo auðvitað langþráð fæðing litlu frænku en Svana systir eignaðist svaka sæta (og gáfaða og sterka) dóttur þann 25 júní.

JÚLÍ

Áfram héldu hjólatúrarnir og matarboðin en að þessu sinni var farið í matarboð til Helgu Daggar og Úlfars ásamt þeim Jónínu Dögg og Friðrik. Þá var ferming hjá Birki, syni Hjalta frænda.

Guðmundur Adam var valinn í fyrsta landsliðsverkefnið sitt og fékk að fara í sameiginlegar æfingarbúðir með Grænlandi og Færeyjum. Þær eru haldnar til skiptis í löndunum og voru þær núna í Nuuk á Grænlandi.

Þegar Guðmundur kom til baka fórum við svo í sumarfrí austur á Egilsstaði, þar sem við byrjuðum á að skoða nýja baðstaðinn Vök. meira um það í Ágúst 🙂

ÁGÚST

Sumarfríinu eyddum við að stærstum hluta á Egilsstöðum. Þar væsti ekki um okkur hjá þeim Ingibjörgu og Árna. Kristófer varð eftir í bænum enda var förinni hjá honum heitið á Þjóðhátíð í Eyjum líkt og undanfarin ár.

Við skelltum okkur í Vök Baths, sem er nýr baðstaður við Urriðavatn. Baðstaðurinn er virkilega vel heppnaður en kannski örlítið í dýrari kantinum líkt og flestir þessir baðstaðir eru að mínu mati. Þá fórum við í dagsferð í Stuðlagil sem er einn af fallegri stöðum á Austurlandi og þó víðar væri leitað. Við fórum lengri leiðina (austan megin held ég að það sé) en þar er ca 40 mín ganga að gilinu. Þeim megin er hins vegar mun fallegra að sjá það og hægt að ganga mun lengra ofaní það.

STUÐLAGIL

Þau Lena og Guðmundur dunduðu sér svo við það að stökkva ofaní Eyvindará í blíðunni en foreldrarnir létu sér nægja að standa á bakkanum með áhyggjur og nokkur vel valin varúðarorð.

Eyvindará
Lena að stökkva

Að mati Guðmundar var hápunktur frísins (og líklega sumarsins) þegar hann fékk að fara með frændum sínum, Sævari og Óla, á torfærubraut á mótorhjólunum þeirra. Þar fékk hann að hjóla nokkra hringi og hefði helst ekki viljað hætta.

10. ágúst fórum við svo, líkt og stór hluti Íslendinga, á Ed Sheeren tónleikana. Þeir voru alveg frábærir þó að maður hefði þegið nokkrar hitagráður til viðbótar.

Þann 18. ágúst var svo litla frænkan skírð. Ég fékk þann heiður að vera skírnarvottur ásamt Ólöfu frænku. Litla frænkan fékk nafnið Hjördís Birta Gígja í höfuðið á ömmu sinni.

Í ágúst fékk ég líka smá bólgur í hjarta og varð því að taka því rólega í einhvern tíma og þurfti að hætta þátttöku í eigin hreyfingaráskorun. Það má lesa um það nánar hérna.

SEPTEMBER

Í byrjun september skelltum við okkur með Lenu og Guðmundi í keppnisferð til Sollentuna í Svíþjóð. Þar var Lena að keppa í fyrsta skiptið en Guðmundur hafði farið fyrir tveim árum. Þetta var mjög skemmtileg ferð og allir þáttakendur frá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar voru til fyrimyndar enda einstaklega prúðir krakkar þar á ferð. Lena Rut náði sér í silfurverðlaun í tvíliðaleik og Guðmundur í tvenndarleik.

Jónína fékk svo að halda uppá afmælið sitt daginn sem við vorum á heimleið frá Sollentuna.

Í lok mánaðarins fórum við Jónína svo í ferð til Frakklands með 8×4 félögum (saumaklúbbur Jónínu og makar) en lesa má nánar um þá ferð hér að neðan í október 🙂

OKTÓBER

Og þá er komið að seinni af ferðum ársins hjá foreldrunum. Í þetta sinn var farið með 8×4 klúbbnum í glæsihús á frönsku ríveríunni. Klúbburinn hafði safnað fyrir ferðinni í nokkurn tíma og því gátum við leyft okkur ýmislegt. Flogið var til Genf og keyrt þaðan á tveim bílaleigubílum. Farið var í skoðunarferðir til Marsaille, Cassis, St. Tropes og svo skoðað sig um í nágrenninu. Þá var einn dagur tekinn í algjört dekur þar sem við fengum nuddara í húsið til að nudda allt liðið og svo kom kokkur um kvöldið sem eldaði ofaní mannskapinn. Hreint frábær ferð í enn betri félagsskap.

Guðmundur gerði góða ferð á badminton mót í október þar sem að hann náði þeim árangri að vinna þrefalt gull. Sigraði hann í einliða, í tvíliða með Jón Sverri og tvenndar með Lilju.

Svo lét Jónína langþráðan draum rætast í október þar sem hún fékk sér tattoo með eiginhandarskrift pabba síns.

NÓVEMBER

Í byrjun nóvember fór ég í vinnuferð til London á WTM sem er orðinn árlegur viðburður. Konan kom ekki með í þetta skiptið og því var lítið verslað (jeii).

Þegar heim var komið skelltum við okkur eina nótt í Hraunsnef. Á leið þangað stoppuðum við í Krauma í Borgarfirðinum. Það er huggulegasti baðstaður en þó þykir mér hann alltof dýr og einn af þeim sístu sem hafa opnað undanfarin ár, að mínu mati. Í Hraunsnefi var mjög fínt að vera, frábær matur og fín aðstaða.

DESEMBER

Líkt og margir aðrir þá skelltum við fjölskyldan okkur á að prófa Flyover Iceland. Það var hrein snilld og hvet alla til að prófa.

Þá fórum við hjónin ásamt Kiddu og Ómari á Sex í Sveit í Borgarleikhúsinu.en fórum fyrst og fengum okkur að borða á Kringlukránni, já við erum þetta gömul :-). Sýningin var hreint frábær. Svo var gerð heiðarleg tilraun til að skella sér á bari á eftir en sökum æfingar og þekkingarskorts þá enduðum við í bjór heima hjá Kiddu og Ómari.

Jólin sjálf fóru aðeins öðruvísi en planað var en Kristófer Ingi fékk pest á Þorláksmessu og naut sín lítið yfir jólin. Honum tókst svo að smita gamla karlinn smá sem var veikur á jóladag og nokkrum dögum betur.

Kidda, Ómar og fjölskylda eyddu með okkur áramótunum líkt og stundum áður. Það var ákveðið að hafa grafnar gæsabringur í forrétt, kalkún í aðalrétt og ís í eftirrétt. Við tókum smá áhættu og prufuðum að Sous Vide elda kalkúninn í fyrsta skiptið. Það tókst svona líka ansi vel, hrikalega mjúkur og bragðgóður. Mjög skemmtileg kvöldstund þar sem var spilað eitthvað frammá nótt.

Í lok síðasta annáls lofaði ég að þessi annáll yrði styttri en mér sýnist ég verða að svíkja það enda árið búið að vera mjög skemmtilegt. Þeim fjölmörgu sem ég fékk að eyða tíma með á árinu þakka ég og vona að stundirnar verða fleiri á nýju ári.

Flokkar:Ferðalög, Fjölskyldan, Lífið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: