2023 í máli og myndum


Áramótapistillinn er allskonar, líkt og áður, og fyrst og fremst mér til gamans. Þetta er ekki tæmandi og ef ég skyldi hafa gleymt einhverjum og ef svo ólíklega vill til að sá hinn sami lesi þetta, þá sorry :-).

Janúar

Árið byrjaði af krafti í janúar. Strákarnir okkar (landsliðið) að keppa í handbolta, tvö matarboð, Hjördís Birta í gistingu og svo auðvitað 19 ára afmælið hjá Guðmundi Adam. Svo var mér boðið í leikskólann hjá Hjördísi á bóndadag.

Febrúar

Febrúar var tiltölulega rólegur en Guðmundur gerði gott mót í byrjun mánaðarins og náði sér í gull í tvíliða og einliða. Og þá kíkti Egill til landsins og í heimsókn. Svo var það auðvitað 25 ára afmæli frumburðarins okkar. Ég tek mér það bessaleyfi að skella inn þessari flottu mynd af honum.

Mars

Hjördís kom til okkar yfir helgi að þessu sinni og engin lognmolla þar. Lena hélt uppá 16 ára afmælið sitt og fékk auðvitað fyrsta ökutímann á afmælisdaginn. Ég fór í vinnuferð til Berlínar og leyfði Jónínu að fljóta með. Friðrik bauð okkur svo í 50 ára afmælið sitt (gleymdi að taka mynd) og svo héldu Guðmundur og Lena áfram að taka þátt í Badminton mótum.

Apríl

Einn af hápunktum ársins var svo fjölskylduferðin til Krítar sem kom ansi vel á óvart. Markmiðið var að slappa vel af og njóta samveru með fjölskyldunni og tókst það vel. Fórum meðal annars að kafa sem mér fannst geggjað en það voru ekki allir sammála mér með það. Svo var eftirminnilegt þegar við eltum Google maps og fórum í byrgi frá seinni heimsstyrjöld sem gekk langt neðanjarðar og þar bjuggu nokkrar leðurblökur.

Þegar heim var komið tókum við mömmu gömlu í óvissuferð sem við höfðum gefið henni í jólagjöf. Var ferðinni heitið til Vestmannaeyja en hún hafði ekki komið þangað í ansi mörg ár.

Í lok mánaðarins toppaði Lena svo veturinn í Badminton og vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í tvíliða.

Maí

Í maí fór Lena í æfingarferð til Færeyja, við fengum Daggirnar og menn þeirra í mat til okkar. Í lok mánaðarins fór Kristó með vinnunni sinni til Stokkhólms.

Júní

Ferðalögin héldu áfram í júní þegar Guðmundur fór með Rakel og fjölskyldu hennar til Alicante. Þá skelltum við hjónin okkur til Egilsstaða. Farið var með stuttum fyrirvara og ástæðan var blíðviðrið á Austurlandi og kuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Það var svo stór áfangi hjá Lenu þegar hún útskrifaðist úr grunnskólanum NÚ. Þá var líka borað eftir vatni í bústaðnum hjá mömmu fyrir austan. Það tókst þó það hafi verið tvísýnt á tímabili. Í lok mánaðarins var farið í útskrift hjá Ingu frænku sem var að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur og svo auðvitað afmæli hjá Hjördísi Birtu.

Júlí

Í byrjun júlí hengjum við svo hjólhýsið aftaní með von um að koma ekki heim aftur fyrr en í kringum verslunarmannahelgina. Byrjuðum á að fara með saumaklúbbnum í óvænt afmæli hjá Signý og Sigga. Signý varð 50 ára og var þetta óvænt fyrir hana. Allir aðrir vissu af því. Við hittumst því rétt við Dalvík, skreyttum bílana og svo var ekið að bústaðnum þeirra með tónlist og flauturnar á fullu. Frábær helgi.

Því næstu höfðum við nokkra daga á Vesturlandi áður en ættarhittingur hjá Jónínu var í Varmalandi. Það var mjög gaman þó að þetta hafi verið köldustu dagar sumarsins. Lena var sótt fyrir fjölskylduhittinginn og ætlaði að vera með okkur í mesta lagi eina viku. Endaði það þannig að hún var með okkur í rúmar tvær vikur þar sem við flökkuðum á milli tjaldsvæða á Suðurlandi með vel völdum vinum og fórum oft í frisbee golf. Fórum svo heim 31 júlí eftir 25 daga á ferðinni.

Ágúst

Ágúst var líklega mánuður hjólatúra en við fórum í þá nokkra. Yfirleitt var útsýnið mitt þannig að Jónína var fyrir framan mig enda fór hún yfirleitt nokkuð hraðar á fjallahjólinu. Árni og Ingibjörg komu í bústað við Hveragerði þar sem Árni hélt uppá 75 ára afmælið sitt. Svo byrjaði Lena í MK um miðjan mánuðinn.

September

Jónína hélt svo, eins og vejulega, uppá afmælið sitt í byrjun september þar sem við skelltum okkur meðal annars í Lasertag. En annars var nóg að gera í september, matarboð, útskrift, annað matarboð og svo auðvitað 50 ára afmæli Helgu Daggar (gleymdi líka að taka myndir). Svo fórum við á geggjaða Jim Morrison tónleika þar sem Björgvin Franz var ógleymanlegur.

Október

Október er frekar rólegur. Jónína fór með vinnunni í sumarbústað og svo með öðrum skólastjórum til Toronto. Svo átti Óskar 50 ára afmæli og við urðum auðvitað að koma honum á óvart.

Nóvember

Ég fór í vinnuferð til London og dró Jónínu með. Við tókum okkar nokkra aukadaga þar enda London uppáhaldsborgin okkar og kemur alltaf á óvart.

Desember

Desember var að venju yndislegur. Þó var afskaplega erfiður dagur í byrjun mánaðarins þegar við kvöddum hana Ronju sem hafði verið ein af fjölskyldunni síðustu 13 ár. 

Svo tóku við fastir liðir eins og árleg borgarferð okkar hjónanna þar sem við gistum núna á Hotel Reykjavik Saga, alveg hreint geggjað hótel. Skelltum okkur á tónleika með Mugison og KK í Fríkirkjunni sem voru alveg frábærir, mæli með þeim á næsta ári.

Á aðfangadag var svo mamma hjá okkur og svo auðvitað Svana og Hjördís Birta. Það voru því slatta margir pakkar undir tréinu.

Hittum svo Egil og Cristinu á milli jóla og nýárs sem klikkar aldrei. Árinu lauk svo í faðmi fjölskyldunnar með spilakvöldi.

Flokkar:Fjölskyldan, Lífið

Færðu inn athugasemd