Ég hef verið viðskiptavinur Landsbankans í líklega nærri 20 ár og verið ánægður með það svona mestan part. Í gegnum tíðina hafa það fyrst og fremst verið þjónustufulltrúarnir sem hafa gert það að verkum að ég hafi verið ánægður, þeir hafa verið það góðir að maður man ennþá nöfn þjónustufulltrúa frá því fyrir rúmum 10 árum síðan. Nú undanfarið hefur sú ánægja farið hratt dvínandi.
Ástæða þess er fyrst og fremst alveg arfaslök þjónustustjórnun hjá Landsbankanum. Ég er með ólöglegt erlent bílalán sem ég var með hjá SP og er það því á ábyrgð Landsbankans að endurreikna þau. Eins og flestir vita þá hófst þessi vinna hjá þeim í byrjun júlí á síðasta ári. Á þessum tíma hef ég nokkrum sinnum sent Landsbankanum tölvupóst og leitað eftir upplýsingum um hvar lánið mitt sé statt í röðínni og hvenær ég megi vænta niðurstöðu. Og þá komum við að þessari arfaslöku þjónustustjórnun hjá Landsbankanum en þeir hafa verið uppteknari við að skrifa fréttatilkynningar um hve vel endurútreikningurinn gengur heldur en að segja viðskiptavinum sínum rétt frá og hafa margoft lofað upp í ermina á sér. Hér að neðan má sjá svör Landsbankans en rétt er að nefna að mitt lán er uppgreitt.
Tölvupóstur 15. júlí 2013:
Fyrst verða reiknuð þau lán sem enn er verið að greiða af og sem greidd hafa verið upp eftir fyrri endurútreikning. Ljóst er að vinnan við leiðréttingu lána mun taka töluverðan tíma vegna fjölda samninga, en vonir standa til að endurreikningi verði að stærstum hluta lokið fyrir áramót.
Tölvupóstur 22. október 2013:
Endurútreikningur lána er í fullum gangi. Gert er ráð fyrir að leiðréttingu lána verði lokið fyrir áramót.
Tölvupóstur 10. desember 2013:
Vinnan við leiðréttingu lána er enn í fullum gangi og er stefnan enn sú að leiðréttingu verði lokið á meirihluta þeirra lána sem ljóst þykir að falla undir núverandi dómafordæmi nú um áramót.
Við vonumst því til að geta veitt þér nánari upplýsingar um þitt lán á allra næstu vikum.
Tölvupóstur 21. janúar 2014:
Þetta ætti að verða tilbúið á allra næstu vikum.
Tölvupóstur 4. mars 2014:
Bankinn hefur gefið út að endurútreikningar verði kláraðir á fyrri hluta ársins.
Eins og sjá má af þessum svörum er væntinga og þjónustustjórnun hjá Landsbankanum alveg afskaplega slök. Hvernig stendur á því að svona stórt fyrirtæki stjórnar þessu svona illa? Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem skilar tæplega 30 milljarða hagnaði ræður ekki nokkrar hræður í viðbót við að endurreikna ólögleg lán og standa þannig við það sem þeir hafa sagt viðskiptavinum sínum? Hvernig stendur á því að endurútreikningurinn tekur svona miklu, miklu lengri tíma núna en hann gerði þegar þessi sömu lán voru endurreiknuð fyrst?
Ætli þetta geti tengst því að fyrningarfrestur þessara lána rennur út í júní næstkomandi? Eða getur þetta tengst því að starfsmenn og eigendur fá kannski hærri arð þegar ekki er búið að greiða allt til baka? Eða er það kannski vegna þess að bankinn fær mikla vexti af þeim peningum sem þeir hafa ekki endurgreitt ennþá.
Ég hef ekki svör við þessum spurningum en ég veit þó það að ég verð ekki viðskiptavinur Landsbankans mikið lengur.
Svo les maður hér http://kjarninn.is/vidskiptavinir-landsbanka-fa-meira-nidurfellt hversu flottur bankinn hefur verið og hversu mikils virði viðskiptavinir hans eru – hum ? eru margir Landsbankar í landinu eða er „glerbúr“ yfirstjórnarinnar með skítuga glugga og sjá ekki út um þá og þannig vita ekki hver raunveruleikinn er ?