Markaðssetning Hafnarfjarðar sem áfangastaðar er mér hugleikin enda eru að mínu mati mörg ónýtt tækifæri í ferðaþjónustu fyrir Hafnarfjörð. Ég hef áður rætt og skrifað um mikilvægi þess að merkja Hafnarfjörð betur fyrir þá ferðamenn sem eru að koma frá Keflavík. Það hefur nú verið gert og hafa verið sett upp þrjú skilti.
Hérna má sjá fyrsta skiltið þegar komið er inn í sveitarfélagið.
Annað skiltið er á móts við Álverið í Straumsvík
Og að lokum er það þriðja skiltið sem er á móts við Vellina.
Flott framtak að setja upp skilti á leiðinni og minna þannig á Hafnarfjörð fyrir allan þann fjölda ferðamanna sem keyra Reykjanesbrautina. Nú komum við hins vegar að þeim hluta sem má gera betur.
Þegar áfangastaður er markaðssettur þá er grundvallaratriði að beina markaðsstarfi að ákveðnum markhóp og það er ekki vænlegt til árangurs að sá markhópur sé „allir ferðamenn sem koma til Íslands“. Mun betra er að marka markaðsstefnu fyrir Hafnarfjörð og í framhaldinu að ákveða markhóp eða markhópa sem á að höfða til. Þá þarf einnig að ákveða slagorð sem eru þá skilaboðin sem eiga að höfða til markhópsins en hlutverk slagorða eru að koma á framfæri ákveðinni staðfærslu. Nú erum við með vöru sem heitir „Hafnarfjörður“ og þá getum við ekki verið með þrjú slagorð fyrir þessa „vöru“. Það gengur einfaldlega ekki að Hafnarfjörður sé „Town of Vikings“, „Town of elves“ og „The town in the lava“.
Það er nauðsynlegt fyrir Hafnarfjörð að leggja kraft í auknar rannsóknir, komast að því hvaða markhópur það er sem er að heimsækja bæinn og af hverju og í framhaldinu að vinna markvisst í að stækka þann hóp.
Það væri hægt að hafa áfram þrjú skilti og hafa skilaboðin til dæmis eitthvað á þessa leið eins og sjá má hér að neðan en auðvitað mætti það einnig vera um Víkingana
Skilti 1 þegar komið er inn í bæinn
Og svo yrði haldið áfram að byggja upp spennu eftir því sem nær dregur
og svo til dæmis
Og svo að lokum til að fá ferðamenn til að beygja
Þetta er bara hugmynd og má örugglega útfæra á mun betri hátt.
Þessir ferðamenn sem náð er í með þessum skiltum yrðu alltaf hins vegar ákveðin viðbót þar sem að flestir ferðamenn eru jú búnir að skipuleggja Íslandsferðina áður en þeir koma hingað og því munum við ekki ná með þessu móti í þá ferðamenn sem við þurfum. Við þurfum ferðamenn sem stoppa hjá okkur, gista hjá okkur, borða hjá okkur og versla hjá okkur. Til þess að ná þessum ferðamönnum þarf að eiga sér stað ákveðin uppbygging og vöruþróun. Það þarf að vera mun meira fyrir ferðamanninn að gera í bænum.
Þegar þeirri vinnu er lokið þarf að fara í þá miklu vinnu að kynna áfangastaðinn markvisst fyrir ferðamönnum og þeim sem selja Ísland. Meira um það síðar.
Færðu inn athugasemd