Það er áhugavert að lesa fréttirnar þessa dagana en þar kemur fram meðal annars að Steingrímur J, fyrrverandi fjármálaráðherra í „skjaldborgar“ ríkisstjórn Jóhönnu sé í Aþenu að ræða um viðreisn Íslands. Þá er Gunnar Bragi, utanríkisráðherra í „leiðréttingar“ ríkisstjórn Sigmundar í Úkraínu þar sem hann bauðst meðal annars til þess að miðla til þeirra um hvernig Ísland reis úr öskunni. Nú veit ég ekki á hvaða Íslandi þessir tveir menn búa en lítum aðeins á fréttir vikunnar.
- Nokkur þúsund manns mótmæla reglulega á Austurvelli (hmmm, var það ekki þannig strax eftir hrunið líka)
- Framhaldsskólakennarar í verkfalli (hafa greinilega ekki heldur frétt af viðreisn Íslands)
- Háskólakennarar ætla í verkfall (myndi nú ætla að háskólakennarar viti af viðreisninni)
- Mörg verkalýðsfélög hafna samningum
- Alþingismenn halda áfram að sjá til þess að virðing almennings fyrir alþingi sé í lágmarki.
- Forseti Íslands heldur áfram að ergja ríkisstjórn.
- Enn verið að leita að forsætisráðherra (Jóhanna týndist líka á sínum tíma)
- Hundruð umsókna bárust um fjárhagsaðstoð við gjaldþrotaskipti.
- Skorað á ríkisstjórna að halda þjóðaratkvæðagreiðslu (hefði nú verið gott ef að fyrri ríkisstjórn hefði klárað það að setja í lög að ákveðið hlutfall gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu)
- Ísland í deilum við nágrannaþjóðir vegna fiskveiða.
- Orkufrek stóriðja áformuð víða um land
En svo eru það aðrir sem hafa greinilega frétt af viðreisninni og það hræðir ekkert hvað þessar fréttir minna á árin fyrir hrun (sagt með kaldhæðnistón)
- Hagnaður bankanna tugir milljaðar. Þar af var Landsbankinn með 28 milljarðar hagnað á sama tíma og þeir hafa ekki ennþá lokið endurútreikningum ólöglegra gengislána.
- Bankarnir greiða út arð (Arion greiðir 7,8 milljarða)
- Byggingarkranar út um alla borg.
- Krafa um hærri laun fyrir bankastjórana og þá aðallega bankastjóra Landsbankans. Þetta er nú skiljanlegt enda hefur hann staðið sig vel í að sjá til þess að staðið væri við loforð um endurútreikninga og einnig er hann ekki nema með um 18 milljónir á ári og hækkaði bara um 300.000 kr í fyrra (sagt með kaldhæðnistón)
Já það er gott að við lærðum eitthvað á síðustu árum.
Færðu inn athugasemd