Það eru hævarar raddir í fjölmiðlum og viðar sem alhæfa um ýmislegt varðandi Ísland og ferðaþjónustuna það. Þessar raddir fullyrða út frá misgóðum rökum og er þetta allt frá því að fjöldi byggingarkrana sé samasem merki um að hrun sé yfirvofandi yfir í að rútuumferð sé almennt leyft eða bönnuð í miðbæum víða um heim.
Ég er núna í ferðalagi um hluta Evrópu. Er búinn að vera að ferðast frá Mílano til St. Tropez, aftur til baka meðfram La Roya ánni frá Ventimiglia til Cuneo og svo þaðan í gegnum Milano til Sviss. Er núna að ferðast um Sviss og er að skoða þar „stór“borgir eins og Bern og Luzern ásamt minni bæjum eins og Olten og Aarau. Erum búin að gista á hótelum, gistihúsi og leigðum „villu“ á frönsku ríveríunni en erum núna í húsaskiptum við Svissneska fjölskyldu. Erum búin að ferðast um með bílaleigubíl, lest, flugvél og erum núna á einkabíl svissnesku fjölskyldunnar.
Það eru nokkur atriði sem ég hef tekið eftir á ferðalaginu sem mig langar til að minnast á.
Fjöldi byggingarkrana = hrun yfirvofandi
Aftur og aftur heyrir maður það í umræðunni heima að fjöldi byggingarkrana bendi til þess að hrun sé yfirvofandi. Á þessu ferðalagi hef ég tekið eftir því að mjög víða er verið að byggja og stækka bæði borgir og bæi. Hér í þessum 3.000 manna bæ sem við erum í núna sé ég til dæmis að það eru hérna í bænum yfir 10 byggingarkranar. Það er einn byggingarkrani á hverja 300 íbúa. Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir íbúa bæjarins enda hlýtur að vera hrun á næsta leyti. En þegar rætt er við íbúana þá er það ekki þeirra upplifun. Þeir vita ekki það sem við Íslendingar vitum að því fleiri sem byggingarkranarnir verða þeim mun líklegra er að það sé fjármálahrun á næsta leyti. Spurning um að fara að fræða þá um þetta.
Salernisaðstaða og skítandi ferðamenn.
Það var nokkuð áberandi í Suður Frakklandi að þar var ekki mikið um salerni þar sem ferðamennirnir stoppuðu. Við stoppuðum til dæmis á vinsælum áningarstað við Cassis á frönsku ríveríunni þar sem var nokkuð um ferðamenn og nokkrar rútur. Ekkert var salernið þar fyrir ferðamennina og vitið hvað, þar voru klósettpappírar og mannaskítur víða.
Þegar við heimsóttum sumar borgir þá var einnig erfitt stundum að finna almenningssalerni og þá fann maður víða hlandlyktina.
Í Bern í Sviss var þessu öfugt farið. Þar voru salernismerkingar á kortum víða í gamla borgarhlutanum og auðvelt að ganga á næsta salerni. Lítið var um hlandlyktina þar og almennt var þessi borg gríðarlega snyrtileg. Við erum fimm manna fjölskylda, drekkum mikið vatn í evrópska hitanum og þennan dag sem við heimsóttum Bern eyddum við líklega nærri 15 svissnöskum frönkum (1.500) í salerni, já það kostaði inná þau öll. Salernin þarna voru sérstaklega snyrtileg og auðfundin og þar með ekki mikið mál að greiða fyrir þá aðstöðu.
Niðurstaðan á þessum litla samanburði mínum er einfaldlega sú að ef það eru salerni til staðar þá skíta og míga ferðamenn síður úti í náttúrunni. Já ég veit, shocking.
Bílastæði
Einn þægilegasti ferðamátinn í ferðinni var líklega lestin frá Mílano til Aarau í Sviss, amk fyrir mig. Þarna gat ég slappað af og notið útsýnisins, skroppið í veitingavagninn og keypt mér drykk og skroppið svo á salernið og migið þessum drykk aftur.
Hins vegar höfum við ekið mikið um á bíl og því þurft mikið að finna bílastæði. Það skipti ekki máli hvort við þurftum að finna bílastæði í stórborg eins og Mílan og Cannes, Monako eða Bern. Það skipti heldur ekki máli hvort við þurftum að finna bílastæði í smábæ eins og St.Tropez og Eze í Frakklandi eða í smábæ eins og Aarau (20.000 manns) í Sviss. Alls staðar þurfum við að borga fyrir það. Sumsstaðar var aðstaðan góð með merkt bílastæði en annars staðar var þetta malarstæði með einum sjálfsala. Meira að segja í sumum verslunarmiðstöðvum þurfti að greiða fyrir bílastæðin. Alls staðar þarf að borga og viti menn, alls staðar borguðum við og aðrir. Mín niðurstaða er því sú að það sé hægt að hafa bílastæði fyrir ferðamenn (innlenda og erlenda), koma þannig í veg fyrir að bílum sé lagt hér og þar og einnig hægt að hafa tekjur af þessu. Já ég veit, shocking.
Rútur og ferðaþjónustubílar eiga ekki heima í miðbæ borga.
Eins og margir vita hefur borgarstjórn Reykjavíkur tekið þá ákvörðun að banna rútur og ferðaþjónustubíla víða í miðborg Reykjavíkur. Það er enda eðlileg ákvörðun þar sem að þannig er þetta víða í stórborgum erlendis auk þess sem ferðamennirnir geti alveg gengið stuttan spöl á hótelið. Ekki er tekið tillit til veðurfars, né ástands miðborgarinnar að nóttu um helgar og þá er ekki heldur tekið tillit til þess að almenningssamgöngur eru víða betri erlendis.
Ég fylgdist sérstaklega með þessu núna á ferðalaginu og viti menn hérna víða erlendis þá var gert ráð fyrir sér rútustæðum. Bæði í litlum smábæjum í Suður Frakklandi eða í Sviss en einnig í stórborgunum. Þetta er alveg ótrúlegt og þetta virðist hið opinbera í viðkomandi bæ hafa gert (sorry hæðnistóninn).
Nokkur önnur áhugaverð atriði.
Víða á ferðalaginu mínu þá voru aðrir ferðamenn einnig í ferðalagi. Það kom því fyrir að ég þurfti að standa í röð nú eða að aðrir kláruðu fyrst að njóta útsýnisins áður en ég gat gert það. Einnig var það stundum þannig að aðalverslunargata viðkomandi bæjar var nokkuð þétt setin af ferðamönnum. Rétt eins og í Reykjavík þá átti þetta að mestu bara við um aðalgötuna. Hliðargötur voru með minna af fólki.
Víða voru stór bílastæði, malarplön eða tún og gætu trúlega ferðamenn fengið þá hugmynd að gista í húsbílum eða hjólhýsum á þessum svæðum. Hið opinbera fékk hins vegar þá snilldarhugmynd að merkja þessi svæði sérstaklega þannig að það mætti ekki gista þarna. Hreint ótrúleg hugmynd sem virðist virka. Þeir kannski fylgja þessu eftir með löggæslu?
Við einn af frægari ferðamannstöðum í Sviss, Lauterbrunnen, er foss. Að þessum foss er göngustígur, nokkuð brattur. Þessi göngustígur virðist verða háll yfir vetrartímann. Líklega vegna snjó og kulda? Þar er tekið á það ráð að loka viðkomandi göngustíg að fossinum enda skapar annað hættu. Núna veit ég ekki hvort að þetta vekji mikla gagnrýni líkt og hefur gert hjá okkur þegar göngustígnum að Gullfoss er lokað. Þeir hafa hins vegar skilti sem útskýrir þetta ágætlega.
Við heimsóttum glæsilegan helli sem var gerður aðgengilegur fyrir ferðamenn árið 1904 með því að steypa þar göngustíga, tröppur og annað. Með þessu móti geta næstum allir skoðað þennan helli. Einnig skoðuðum við hrikalegt gljúfur sem var með göngustíga festa í bergið. Það gerði það að verkum að næstum allir gátu skoðað þetta gljúfur. Einnig voru þarna fjöll sem voru með kláfa eða lestir uppá. Með því móti gátu næstum allir notið þess útsýnis sem þessi fjöll höfðu uppá að bjóða.
Við á Íslandi erum nýlega farin að gera suma hella, líkt og Raufarhólshelli, aðgengilega. Vonandi gerist það sama fljótlega með einhver gljúfur nú eða jafnvel kláf uppá Esju. Kannski erum við einfaldlega rúmum 100 árum á eftir öðrum evrópulöndum í ferðaþjónustu. Það áhugaverða er þó að þetta gátu þau gert án þess að hækka vsk á ferðaþjónustu í hærra þrepið hjá sér.
Vil þó líka taka það fram að sums staðar keyptum við hálfan líter af vatni á um 1,5 franka (rétt um 170 kr) en annars staðar greiddum við allt að 5 frönkum fyrir það (rétt um 550 kr). Ég er enn að bíða eftir að einhver svissneskur fjölmiðill hafi samband við mig til að taka viðtal um okrið í svissneskri ferðaþjónustu (Journalist kann mich in den Kommentaren unten kontaktieren.)
- Troðfull göngugata
- Upplýsingar um lokaðan göngustíg
- Bannað að gista
- Aare Gorge – gil
- St. Beatus hellarnir
Stjórnmálamenn hafa oft haft þannig á orði að ferðaþjónustan hafi slitið barnsskónum og því þurfti að koma fram við hana eins og alvöru atvinnugrein. Eftir þetta nýjasta ferðalag mitt er þó alveg ljóst að hið opinbera á Íslandi (bæði ríki og sveitarfélög) eru óttaleg bleyjubörn samanborið við önnur lönd. Ég vona því að almenningur og aðrir fari aðeins að átta sig á því að stærsti aðilinn í ferðaþjónustu á Íslandi er hið opinbera. Sá aðili er einnig mesti okrarinn og sá sem gerir einna minnst. Leyfum ekki stjórnmálamönnum að komast upp með það að dreifa athyglinni frá þeirra ábyrgð.
P.s. Þessi grein er skrifuð með vott af kaldhæðni en ég vona þó að lesandinn átti sig á því að við getum gert svo miklu, miklu betur. Við þurfum bara að vera sammála um að skila skömminni til hins opinbera en það eru fyrst og fremst þau sem þurfa að bæta sig. Við þurfum þá líka að vera sammála um að sumt þarf að breytast frá því sem það hefur alltaf verið.
Færðu inn athugasemd