Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Sanngirnismál?


Eins og flestir hafa líklega tekið eftir hefur ríkisstjórnin tilkynnt að þau hyggist hækka virðisaukaskattinn hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Fyrst langar mig til að leiðrétta einn misskilning. Það eru ekki fyrirtækin sem greiða virðisaukaskatt. Það eruð þið, neytendur. Þið munuð borga þessa hækkun þegar þið gistið á hóteli eða tjaldsvæði, ef þið ætlið að skella ykkur í hvalaskoðun eða ef þið ætlið að skella ykkur í Bláa Lónið.

Ég er menntaður ferðamálafræðingur og hef starfað í ferðaþjónustu síðastliðin sjö ár, þar af um sex ár í gistigeiranum þar sem ég starfa sem sölu- og markaðsstjóri. Ég tel mig því þekkja þann hluta ferðaþjónustunnar nokkuð vel og ætla því að skoða þetta útfrá gististöðum.

Sanngjarnt

Ríkisstjórnin hefur reynt að kynna þessa hækkun meðal annars sem mikið sanngirnismál, að það sé ósanngjarnt að ein atvinnugrein sé að greiða lægri vsk en önnur.

Skoðum það aðeins betur.

Það hlýtur þá að vera að allir gististaðir eiga að greiða sama vsk. Nú er það þannig að sá hluti gististaða sem hefur vaxið hvað mest eru heimagistingar, sem margir kalla í daglegu tali Airbnb. Stærstur hluti þessara hluta gististaða eru ólöglegir og borga því hvorki vsk né gistináttaskatt. Og í stað þess að taka á þeim vanda og jafna þannig samkeppnisumhverfi löglegra gististaða þá ætlar ríkisstjórnin að stuðla að því að bilið verði enn hærra.  Er það sanngjarnt?

En það er kannski erfitt að eiga við þá sem brjóta lögin. Það er hins vegar sanngjarnt að það sé sami virðisaukaskattur á milli atvinnugreina. Nú þurfum við einnig að passa okkur á að bera saman epli og epli. Ferðaþjónusta er útflutningsgrein, er skilgreind þannig annars staðar, enda eru þetta erlendir peningar sem fengnir eru fyrir þá þjónustu sem innt er af hendi. Þá hljótum við að bera saman ferðaþjónustuna við aðrar útflutningsgreinar sem eru stærstar sjávarútvegur og stóriðja. Í dag er ferðaþjónustan í 11% vsk en sjávarútvegur og stóriðja eru með 0% vsk.  Ef fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga þá verður ferðaþjónustan í 24% vsk en sjávarútvegur og stóriðja áfram með 0% vsk.  Er það sanngjarnt?

Við skulum halda áfram að bera ferðaþjónustuna saman og horfum núna til nágranna okkar í Evrópu. Gististaðir sjá um að innheimta gistináttaskatt.  Það er ekki gert á neinu öðru Norðurlandanna.  Gististaðir innheimta núna 11% vsk en ef áætlanir ríkisstjórnar ná fram að ganga munu gististaðir á Íslandi innheimta 24% vsk á meðan flest önnur lönd sem við erum í samkeppni við innheimta 9 – 13% vsk.  Er það sanngjarnt?

En hvað með Danmörk, er ekki 25% vsk þar? Jú, vissulega er það rétt og núna 20 árum eftir að hann var hækkaður eru þau enn að jafna sig á þeirri ákvörðun. Til að reyna að bæta fyrir þá heimskulegu ákvörðun ákváðu Danir að það væri hægt að sækja um endurgreiðslu á vsk af allri gistingu vegna viðskiptaferða. Á milli  40 – 60% allra gistinga í Danmörku eru svo vegna viðskiptaferða og því eru rauntekjur ríkissjóðs Danmerkur mun lægri. Við munum því eiga heimsmetið í virðisaukaskatti sem viðskiptavinir gististaða greiða.

Er það sanngjarnt?

Einföldun

Það er hins vegar mjög mikilvægt að einfalda skattaumhverfið og því eðlilegt að gististaðir greiði 24% vsk í stað þess að flækja þetta með því að hafa 11% vsk.  Hljómar vel,ekki satt?  Skoðum þetta aðeins nánar.  Stærstu tekjuliðir gististaða eru seldar veitingar, áfengi og gistingin sjálf. Fyrir ári síðan var vsk á áfengi lækkaður, meðal annars til að einfalda umhverfi gististaða. Það þótti einfaldlega ekki hentugt að matur væri í 11% vsk, gisting í 11% vsk (þá nýhækkað úr 7%) og svo áfengi í 24%.  Því var það ákveðið að lækka vsk á áfengi úr 24% í 11%.  Verðið lækkaði þó ekki því ríkið ákvað að hækka vörugjöld á áfengi á móti.  Sömu tekjur fyrir ríkissjóð og sömu verð fyrir viðskiptavininn. Þessu var tekið mjög vel af öllum enda til einföldunar.  Af hverju er þá verið að tala núna um að einfalda kerfið áfram með því að taka gistinguna og hækka í 24%.

Er þetta einföldun?

Auknar tekjur fyrir ríkissjóð

Þetta er yfirleitt tilgangur skattahækkana. Fyrst var þetta líka  yfirlýstur tilgangur þessara hækkana en svo hefur það aðeins breyst. Fyrstu tölur sem voru uppgefnar voru að með þessu móti myndu nást um 20 milljarðar í aukatekjur.  Þessi útreikningur ríkisstjórnarinnar hlýtur að hafa miðast við sambærilegan fjölda ferðamanna. Þeir hafa ekkert tekið tillit til þess að með nýlegri styrkingu krónunnar mun fjölgun ferðamanna minnka og eru strax farnar að berast fréttir af afbókunum. Einnig hafa þeir ekki tekið tillit til þess að með því að hækka skatt á löglega gististaði þá er mikil hætta á að ólöglegum gististöðum fjölgi.

Væri ekki skynsamlegra að setja kraft í það að útrýma ólöglegum gististöðum og auka þannig tekjur ríkissjóðs?

Landsbyggðarskattur

Fjölgun ferðamanna hefur haft mest áhrif á höfuðborgarsvæðið og á Suðurland. Landshlutar eins og Austurland og Vestfirðir til dæmis hafa í minna mæli  fengið að kynnast fjölgun ferðamanna og mun þessi hækkun bitna mikið á þeim landshlutum. Þessi hækkun mun hafa mun minni áhrif á höfuðborgarsvæðið og þá vinsælu staði á Suðvestur og Suðurlandi. Í stað þess að hlúa að ferðaþjónustunni úti á landi ætlar ríkisstjórnin með þessari ákvörðun að draga úr líkunum á því að hægt sé að byggja upp blómlega ferðaþjónustu á landsbyggðinni og tryggja það að ferðamenn fari sem minnst af höfuðborgarsvæðinu. Er það skynsamlegt?

Geir Gígja

Ferðamálafræðingur
Sölu – og markaðsstjóri í ferðaþjónustu

Flokkar:Ferðamál, Ferðamál í Hafnarfirði, Pólitík

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: