Reykingar og rafreykingar


Tilefni þessara hugleiðinga hjá mér eru þær að pabbi minn lést úr lungnakrabbameini í lok október og í mikil aukning í rafreykingum hjá ungu fólki í dag.

Pabbi byrjaði að reykja í kringum tvítugt. Hann reykti lengi pípu en einnig sígarettur og var alfarið kominn í sígaretturnar síðustu árin sem hann reykti. Hann hafði auðvitað reynt nokkrum sinnum að hætta en það tókst ekki alfarið fyrr en um 68 ára. Hann var svo greindur með lungnakrabbamein um 9 árum síðar í september 2017 og lést svo 4 vikum síðar.
Hann var líklega einn af þeim heppnu að því leyti að hann fékk krabbameinið seint og var ekki lengi veikur. Þetta hafði því ekki mikil áhrif á líf hans. Þeir eru þó margir sem fá þetta fyrr og þurfa að berjast við krabbann lengi en því miður þá hefur lungnakrabbinn yfirleitt betur.

Þegar pabbi byrjaði að reykja þá þótti þetta nú bara töff (líkt og mörgum finnst með rafreykingar í dag). Þetta þótti einnig hættulaust eða hættulítið að minnsta kosti (líkt og með rafreykingar í dag). Markaðssetningin á þessu var sérstaklega beint til ungu kynslóðarinnar (líkt og með rafreykingar í dag) og reykingar náðu ekki almennilegri fótfestu fyrr en þeir hófu að markaðssetja þetta til fjöldans snemma á síðustu öld og auðvelda aðgengið (líkt og er byrjað að gera með rafreykingar í dag).

Eftir að fjölda markaðssetning (mass marketing) hófst í kringum aldamótin 1900 þá tók það um 40 – 50 ár þangað til lungnakrabbamein varð að faraldri. Sígarettur eru núna taldar vera það sem drepur flesta ár hvert en núna deyja um 1,5 milljón manna árlega úr lungnakrabbameini og áætlað að þetta fari í 2 milljónir manna innan 10 ára. Á sama tíma hafa framleiðendur aukið framleiðslugetu sína mikið og eru núna verksmiðjuvélar sem framleiða 20.000 sígarettur á mínútu og er hagnaður framleiðanda um penní fyrir hverja sígarettur og því er hvert líf ca 10.000 dollara virði fyrir sígarettu framleiðendur.

Þegar pabbi byrjaði að reykja, líklega á milli 1955 – 1960 þá var alveg vitað að þetta væri slæmt fyrir heilsuna. Sígaretturframleiðendur settu bara þeim mun meiri pening í markaðssetningu. 1953 gerðu sígarettuframleiðendur mikla rannsókn sem sýndi framá bein tengsl sígarettureykinga við krabbamein. Þessari skýrslu var haldið leyndri lengi og var í trúnaðarsamtali sem sagt var frá siðar, sagði einn stjórnandi rannsóknarinnar: „væri það ekki frábært ef okkar fyrirtæki væri það fyrsta til að búa til krabbameinslausar sígarettur. Það sem við gætum gert við samkeppnina“. Annar stjórnandi sagði líka hve gott það væri fyrir tóbaksiðnaðinn að reykingar væru svona ávanabindandi.

Í dag hafa verið gerðar rannsóknir á rafreykingum og þær sýna framá að rafreykingar eru ekki eins óhollar og sígarettureykingar (þær eru samt ekki hollar). Ég vona að það sé enginn sem trúi því í alvörunni að það sé í alvörunni hollt eða gott fyrir okkur að sjúga ofaní lungun okkar fullt af verksmiðjuframleiddum efnum. Ég vona líka að það sé enginn sem haldi það að veip framleiðendur séu að framleiða veip af góðmennsku einni saman. Veip framleiðsla eru stór viðskipti og fer sífellt stækkandi. Árið 2015 var þessi bransi metinn á 3,7 milljarðar dollara í Bandaríkjunum eingöngu, Það er áætlað að hann fari í 27 milljarða dollara í kringum 2022 (sumir áætla 50 milljarða dollara). Það er því þessum framleiðendum gífurlega mikilvægt að viðhalda þeirri trú að rafreykingar séu hollar og hættulausar til þess að fólk haldi áfram að borga fyrir það að sjúga mishættulegum efnum í lungun á sér. Ef sagan endurtekur sig sem hún virðist vera að gera þá má búast við faraldri af rafreykingar tengdum sjúkdómum eftir um 40 ár.

Þetta er svo vinsælt hjá ungu kynslóðinni í dag að við erum að heyra dæmi um það í okkar nærumhverfi að nokkrir í 8 bekk hjá yngri syni mínum séu farnir að fikta við þetta og líka dæmi um að 10 ára krakkar hafi prófað. Þetta er alveg eins og þegar reykingar voru að festa sig í sessi en þá voru mörg dæmi um að börn byrjuðu að reykja. Vissulega get ég trúað því að rafreykingar geti hjálpað reykingarfólki að hætta sígarettureykingum en þessi þróun getur ekki verið það sem við viljum. Það getur ekki verið í lagi að gera 10 ára, 13 ára, 17 ára eða 19 ára krakka að neytendum á vöru sem við vitum að er slæmt fyrir þau, við vitum bara ekki almennilega hve slæm því tíminn einn mun leiða það í ljós.

Ég vona að það unga fólk sem er að byrja á þessu núna geri ekki sömu mistök og fyrri kynslóðir heldur hætti þessu strax. Ekki gera ykkur að peningaþúfu fyrir veip framleiðslufyrirtæki og ekki verða að tölfræði yfir þann fjölda sem veikist af veiptengdum sjúkdómi eftir einhver ár, kannski 40 ár en kannski bara miklu fyrr.

Flokkar:Fjölskyldan, Heilsa, Lífið, Markaðsmál

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: