Ferðamannabærinn Hafnarfjörður


Ferðamannabærinn Hafnarfjörður

HöfninUm 96% erlendra ferðamanna, sem koma til Íslands koma til Hafnarfjarðar. 20% þeirra stoppa í  Hafnarfirði, hinir keyra bara í gegn á leið sinni til og frá Leifsstöð.  Ef við fáum um 10% af þeim til viðbótar, til að stoppa í bænum þá höfum við aukið fjölda ferðamanna um næstum 50 %.  Þetta er þó ekki eins auðvelt og það hljómar því að bærinn verður jú að hafa upp á eitthvað að bjóða.

En hvað hefur bærinn að bjóða?  Hafnarfjörður er vel þekktur fyrir að vera víkingabær og eru ferðaþjónustuaðilar að standa sig vel í að kynna þann menningararf.  Það er hins vegar annar menningararfur sem flestir þekkja og vita af en er ekki mikið á yfirborðinu.  Það eru álfarnir okkar.

Undirritaður, ásamt tveim samnemendum í Háskólanum á Hólum, vann nýverið að verkefni um álfa og hvernig Hafnarfjörður gæti gert þá sýnilegri bæði ferðamönnum og íbúum.  Niðurstaða okkar var sú að búa til einskonar Álfaslóð þar sem merkt væri hýbýli álfa og aðrar merkar stofnanir þeirra.  Það yrðu sett skilti á þessa staði og þeir þannig gerðir sýnilegri ásamt því að hafa stutta sögu á hverju skilti.  Þannig gætu ferðamenn gengið sjálfir á milli þessara staða og kynnt sér þennan menningararf um leið og þeir skoða fallega bæinn okkar.  Vissulega er til álfakort í dag en það vantar merkingar á stöðunum sjálfum og að gera álfaslóðirnar þannig sýnilegri þar sem Hellisgerði og Hamarinn væru auðvitað lykilstaðir.

Það er nefnilega ekki svo fjarlægt að gera Hafnarfjörð að höfuðborg álfa á Íslandi og jafnvel í heiminum. Þannig var skrifuð grein árið 2002 í vefútgáfu indverska dagblaðsins The Hindu sem yfir fjórar milljónir manna lesa,  þar sem kom fram að Hafnarfjörður væri einmitt höfuðborg álfa í heiminum.

Hvað er hægt að gera?

Núna er tækifærið að bæta úr því sem þarf, þannig að strax næsta sumar gæti Hafnarfjörður farið að njóta góðs af auknum fjölda ferðamanna.  Þannig mætti hugsa sér einhverjar aðgerðir eða merkingar við Reykjanesbrautina, sem myndi benda ferðamönnum á að þeir væru að keyra í gegnum höfuðborg Álfa og Víkinga.  Hægt væri til dæmis að byggja lítið víkingaþorp við Reykjanesbraut sem bendir ferðamönnum á að næst til hægri sé höfuðborg Víkinga og Álfa.  Í fyrrasumar stóð bærinn fyrir átaki sem var þannig háttað að ungmenni í Hafnarfirði voru send til Reykjavíkur til að dreifa upplýsingum og lokka ferðamenn til Hafnarfjarðar.  Þetta er góð leið sem vonandi verður haldið áfram með næsta sumar.

Mitt mat er að Hafnarfjarðarbær eigi að setja á laggirnar sérstaka Hafnarfjarðarstofu sem hefði það að meginmarkmiði að kynna og markaðssetja Hafnarfjörð til ferðamanna.  Þetta er sú leið sem allir landshlutar hafa farið með góðum árangri en einnig er til Höfuðborgarstofa og Akureyrarstofa. Á Akureyri sér Akureyrarstofa um ferðamála, menningarmál, markaðsmál og atvinnumál.  Höfuðborgarstofa sér um ferða- og kynningarmál Reykjavíkur en einnig um alla viðburði á vegum borgarinnar og rekstur upplýsingamiðstöðvar.  Með Hafnarfjarðarstofu yrðu ferðamál gerð meira áberandi í stjórnsýslunni og þar væri einnig hægt að aðgreina verkefnin niður á menningarmál, ferðmál og viðburðastjórnun. Þá mætti hugsa sér að rekstur Hafnarfjarðarstofu væri samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar og fyrirtækja í bænum enda er það allra hagur að auka ferðamenn í bæinn.

Eitthvað markaðssamstarf er í dag á milli Höfuðborgarstofu og Hafnarfjarðarbæjar sem og annarra sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu.  Ég tel þó að Hafnarfjörður geti gert miklu betur.  Sem dæmi ef það er slegið inn leitarorðið „Elves“ eða Álfar á www.visitreykjavik.is þá kemur upp ein virk niðurstaða sem bendir á Gistiheimilið Álfhól (Elves hill) í miðbæ Reykjavíkur.  Ein virk niðurstaða kemur einnig við leit að Vikings sem bendir þó réttilega á Fjörukránna.  Einnig er þar inni ágætis götukort þar sem allar götur í Reykjavík eru merktar inná en engar götur í Hafnarfirði eða öðrum nágrannabæjum.

Ávinningur bæjarfélagsins af því að fjölga ferðamönnum gæti orðið mjög mikill, ekki síst fyrir verslun og þjónustu. Annar efnahagslegur ávinningur gæti orðið minna atvinnuleysi, aukinn erlendur gjaldeyrir og auknar tekjur auk þess að stuðla að framförum og nýsköpun hjá fyrirtækjum.  Talað er um að hagræn áhrif ferðaþjónustu séu þríþætt.  Bein áhrif koma fram í þeirri starfsemi sem er í beinum tengslum við ferðamanninn.  Óbein áhrif koma fram hjá þeim fyrirtækjum sem selja vörur og þjónustu til þeirra sem eru í beinum tengslum við ferðamanninn. Og að lokum afleidd áhrif sem koma fram í auknum launatekjum sem er svo aftur eytt í vörur og þjónustu.

Til þess að vel gangi þarf Hafnarfjarðarbær að leggja meiri kraft í ferðamálin.  Tækifærin eru til staðar, sjaldan fleiri en núna og kostnaðurinn yrði mjög lítill samanborið við hver ágóðinn gæti orðið fyrir allt bæjarfélagið.

Flokkar:Ferðamál, Ferðamál í HafnarfirðiEfnisorð:, , ,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: