Mikið hefur verið rætt í þjóðfélaginu á undanförnum misserum um mikla fjölgun ferðamanna á Íslandi og það mikla tækifæri sem í þeirri fjölgun felst. Ég hef mikið starfað við markaðsmál í gegnum tíðina og í námi mínu kynnti ég mér mikið markaðssetningu í ferðamálum og þá sérstaklega markaðssetningu áfangastaða. Var lokaverkefni mitt í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum einmitt markaðsáætlun Hafnarfjarðar í ferðamálum. Tækifæri Hafnarfjarðar í ferðamálum eru gífurlega mikil enda eru hérna margar náttúruperlur og ágætir innviðir. Eitt af mikilvægari verkfærum við gerð markaðsáætlana eru rannsóknir og eru þær því miður af skornum skammti í Hafnarfirði sem og á landsvísu. Þegar þó eru skoðaðar kannanir sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar gerði fyrir menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar árin 2011, 2008 og 2005 og ritið Ferðaþjónusta Íslands í tölum má sjá eftirfarandi tölur.
- Ferðmenn gista að meðaltali í 3,1 nótt í Hafnarfirði árið 2011 og er það fækkun úr 3,6 nóttum árið 2006.
- Þeir ferðamenn sem gista í Hafnarfirði eru um 5% af öllum ferðamönnum á Íslandi en hlutfall gistinátta er ekki nema um 2%.
- Sumarið 2011 fjölgaði ferðamönnum sem heimsóttu Hafnarfjörð. Það voru um 16% allra ferðamanna sem komu til Íslands sem heimsóttu svo Hafnarfjörð. Þetta hlutfall var hins vegar 17% sumarið 2008 og 19% sumarið 2005. Með öðrum orðum, aukningin í Hafnarfirði hefur ekki alveg verið í takti við aukninguna á landsvísu þannig að Hafnarfjörður fær einfaldlega minni bita af kökunni.
- Í Hafnarfirði starfar einn menningar- og ferðamálafulltrú en til samanburðar þá starfa sex manns á Akureyrarstofu og þar af eru fimm sem sjá um sambærileg verkefni fyrir Akureyrarbæ.
Það er ljóst útfrá þessum tölum hér að ofan að það þarf að auka verulega markaðsstarf Hafnarfjarðar eigi bærinn ekki að halda áfram að tapa markaðshlutdeild.
Rannsóknir sýna að aukin vitund um áfangastað getur ein og sér haft áhrif á það hvort að ferðamaðurinn komi eða ekki. Síaukinn fjöldi finnur sér upplýsingar um áfangastað áður á netinu og kynnir sér hann þar jafnframt vel.
Nýleg endurbætt vefsíða www.visithafnarfjordur.is lítur ágætlega út en þar hefur ekki verið hugað að mjög mikilvægum þætti sem er leitarvélabestun og eins þarf síðan að vera lifandi. Í leitarvélabestun er vefsíðan útbúin á þann hátt að leitarvélar setji hana ofar þegar leitað er að ákveðnum orðum. Hér að neðan má sjá í hvaða sæti nokkur mikilvæg leitarorð lendir í á leitarvélinni Google.
- Town in the lava 1 sæti
- Vikings in iceland 99 sæti
- Visit Iceland Ekki í fyrstu 200 sætunum
- Hafnarfjordur 4 sæti
- Elves in Iceland 42 sæti
- Geothermal area Iceland 118 sæti
Leitarvélabestun er hins vegar ekki nóg ein og sér. Vefsíðan þarf að vera með rétt lykilorð í réttu hlutfalli, lifandi, uppfærð reglulega, með áhugavert efni sem höfðar til markhópsins og tengd samfélagsmiðlum til að ná til markhópsins. Góð leið til að ná til markhópsins er að vera lifandi á samfélagsmiðlum. Á Facebook má finna Visit Akureyri, Visit Reykjavík og Visit Reykjanes en þar er Visit Hafnarfjörður ekki. Þar er að vísu síða sem heitir Hafnarfjarðarbær sem er öll á íslensku. Á Twitter má einnig finna Visit Reykjanes, Visit Reykjavík og Visit Akureyri en ekki Visit Hafnarfjörður. Sömu sögu er að segja um aðra samfélagsmiðla svo sem Youtube, Pinterest, Reddit og fleiri.
Nú er ekki tilgangur þessarar greinar að kasta rýrð á störf þeirra sem starfa að þessum málum í dag, alls ekki. Tilgangurinn er hins vegar að benda stjórnendum bæjarfélagsins á að það þurfi að leggja mun meira til sé ætlunin að ná árangri. Þegar horft er til annarra áfangastaða þá hafa margir, og núna nýlega einnig Kópavogur sett á laggirnar sérstaka markaðsstofu eins og hefur áður verið lagt til. Hafnarfjarðarstofa þarf að vera vel mönnuð af vel menntuðu fólki sem hefur reynslu og þekkingu á markaðssetningu áfangastaða. Þar þarf að leggja mikla áherslu á markaðssetningu á netinu og áframhaldandi gott samstarf við hagsmunaaðila í Hafnarfirði og við nágranna sveitarfélög. Það þarf að bæta úr þessu strax svo að tækifærið renni okkur ekki úr greipum.
Færðu inn athugasemd