Tekjur af ferðamönnum.


*Greinin birtist fyrst í Ferðapressunni og á gestur.is 8. nóvember 2016.

Nú þegar kosningum er lokið og stjórnmálamenn huga að málefnum og verkefnum er mikilvægt fyrir okkur í ferðaþjónustunni að láta í okkur heyra. Við verðum að vera með háværa og sterka rödd um hagsmuni ferðaþjónustunnar.

Undanfarin misseri hefur verið mikil umræða um mikilvægi þess að ferðamenn greiði (meira) fyrir að heimsækja Ísland. Rætt hefur verið um náttúrupassa, gistináttagjald, komugjöld, bílastæðagjöld, salernisgjöld og fleira í því samhengi. Háværar raddir heyrast um það að það verði að hafa einhverjar tekjur af þessum blessuðu ferðamönnum. Ekki virðast duga þessir 70 milljarðar sem ferðamenn greiða í beina skatta og gjöld árlega. Nei, sífellt meira er talað um að hækka gistináttaskattinn.  Já, skattinn sem er að skila heilum 300 milljónum af þessum 70.000 milljónum og á greinilega að bjarga öllu.

Hér að neðan langar mig að útlista aðeins af hverju hækkun á gistináttaskatti ætti alls ekki að koma til greina og hvaða leið við ættum að fara.

Gistináttaskattur

Það eru ekki allir ferðamenn sem greiða hann:

  • Gistináttaskattur er ekki rukkaður í ólöglegri heimagistingu.
  • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af þeim sem gista hjá vinum og ættingjum.
  • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af ferðamönnum sem gista utan tjaldsvæða á gönguferðum á hálendinu eða annars staðar.
  • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af þeim síaukna fjölda ferðamanna sem leigja sér húsbíla og gista í þeim utan tjaldsvæða.
  • Gistináttaskattur er ekki rukkaður af þeim síaukna fjölda sem velja sér húsaskipti, þ.e. skipta á sinni eigin íbúð við íbúð hérlendis.
  • Ef tveir ferðast saman og gista alltaf í tveggja manna hótelherbergi þá er bara rukkað eitt gjald enda ber að rukka fyrir gistieiningu sem í þessu tilfelli er herbergið.

Nú þegar er verið að innheimta gistináttaskatt.

  • Í desember 2011 var samþykkt að innheimta gistináttaskatt og hafa því ferðamenn greitt hann frá 1. janúar 2012. Þessi skattur er að skila rétt um 300 milljónum árlega núna.
  • Skatturinn er að skila sér til sveitarfélaga í dag í formi úthlutana frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Sjóðurinn dreifir þessum fjármunum víða um land í uppbyggingu ferðamannastaða.

Almenn óánægja er með gistináttaskatt. Eins og kemur fram hér að ofan þá eru það líklega bara rétt um 60% ferðamanna sem greiða þennan skatt en jafnvel þó svo að við náum að útrýma allri ólöglegri gistingu þá mun svona skattur aldrei ná til meira en um 85% ferðamanna. Aðrir ferðamenn gista í heimahúsum hjá vinum eða ættingjum, í húsaskiptum eða annars staðar utan seilingar. Þá er rétt að það komi fram að ekkert Norðurlandanna innheimtir gistináttaskatt.

Einnig má nefna að árið 2014 þá kusu félagsmenn Samtaka íslenskrar ferðaþjónustu (SAF) á milli sjö mismunandi leiða sem komu til greina við að innheimta gjöld af ferðamönnum.  Þar var gistináttagjald í fjórða sæti en þar fyrir ofan voru meðal annars komugjöld auk þess að nýta þær miklu skatttekjur sem erlendir ferðamenn greiða.

Aðrir kostir:

Af fjárlögum

SAF tók saman nýlega hve mikla skatta og gjöld erlendir ferðamenn eru að greiða. Þessi upphæð er um 70 milljarðar á ári núna, já 70.000 milljónir.  Áætlað er að þessi tala muni hækka og að okkar erlendu gestir muni skila um 445 milljörðum í ríkissjóð á næstu fjórum árum. Þrátt fyrir þessa miklu upphæð þá er samt umræða um að þetta sé ekki nóg.

Eðlilegast væri að ríkið myndi nota lítinn hluta af þessum tugum milljarða og nýta í nauðsynlega uppbyggingu og viðhald. SAF áætlar að verja þurfi um 7% af áætluðum tekjum árlega næstu fjögur árin í uppbyggingu.  Af þessum 70 milljörðum færu þannig um 4,9 milljarðar árlega í nauðsynlega uppbyggingu.  Eftir stæðu samt um 65 milljarða á ári sem er svipað og fjárþörf Landsspítalans er á næstu fimm árum.

Komugjöld

Helsti kosturinn við komugjöld er að þau leggjast á alla ferðamenn sem koma til landsins og þannig eru komugjöld skilvirkasta leiðin.

Einhver umræða hefur verið um að komugjöld standist ekki alþjóðlega samninga sem Ísland er hluti að en samkvæmt frétt í Kjarnanum þann 17. desember 2014 þá var unnið lögfræðiálit fyrir SAF og þar kemur fram að komugjöld brjóti ekki í bága við EES samninginn.

Þá eru mörg nágrannalönd okkar að innheimta komugjöld eða að skoða það.  Þar á meðal eru:

  • Noregur sem er búinn að ákveða að innheimta komugjöld og er áætlað að þau verði um 1.200 kr á farþega.
  • Bretland sem hefur innheimt svokallaðan flugfarþegaskatt (air passenger duty) undanfarin ár. Skatturinn er um 13 evrur.
  • Þjóðverjar sem hafa rukkað sérstakt brottfarargjald og er það frá 7,5 evrum á farþega.
  • Austurríki og Írland hafa einnig gert þetta.

Hóflegt gjald á hvern farmiða myndi skila mun meiri tekjum en gistináttaskattur. Ef við miðum til dæmis við 500 kr. á farmiða þá hefði það skilað ríkinu 2,4 milljörðum á síðasta ári.  Ef tekin hefðu verið upp komugjöld árið 2011 í stað gistináttaskatts þá hefðu innheimst um 8,5 milljarðar í stað þeirra rúmu 2,5 milljarða sem gistináttaskattur skilaði.

Virðisaukandi þjónusta

Mikilvægt er að bjóða uppá þjónustu víða um land svo sem góð bílastæði, salernisþjónustu, leiðsögn og aðra upplifun.  Eðlilegt er að rukka hófleg gjöld fyrir þessa þjónustu enda sýnir það sig í öðrum löndum að það þyki eðlilegt.

Eins og sjá má af þessari stuttu samantekt þá eru margar leiðir betri en gistináttaskatturinn. Leiðir sem skilað geta mun meiri tekjum til ríkisins og eru mun skilvirkari. Það er þó rétt að ítreka það að í dag er ferðamaðurinn að skila miklum tekjum í ríkissjóð sem ættu að duga til. Ferðamaðurinn er ekki endalaus auðlind sem hægt er að taka meira og meira af.

Með styrkingu krónunnar undanfarna mánuði hefur verðmiðinn fyrir ferð til Íslands hækkað og því er það hættulegur leikur að ætla að fara í aðgerðir sem hækka ferðina til Íslands enn meira.

Flokkar:Ferðamál, Pólitík

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: